Smásagan Fullkomið í tilefni af degi barnabókarinnar

 Í tilefni dags barnabókarinnar gefur barnamenningarfélagið IBBY samkvæmt venju smásögu til allra barna á Íslandi. Í ár er það Hilmar Örn Óskarsson rithöfundur sem skrifaði smásöguna Fullkomið af þessu tilefni. Hann flytur söguna í útvarpinu á Rás 1 fimmtudaginn 4. apríl kl. 9.05 í þættinum Segðu mér. Eftir upplesturinn tekur Sigurlaug Jónasdóttir viðtal við Hilmar.

Með sögunni fylgir ókeypis námsefni útbúið af Unni Maríu Sólmundardóttur á námsvefnum Kennarinn.is
https://kennarinn.is/ibby/

Hilmar Örn Óskarsson hefur getið sér gott orð fyrir skemmtilegar barnabækur. Fyrsta bókin um hnyttnu Kamillu vindmyllu kom út árið 2012. Bækurnar um Kamillu eru fjórar talsins en auk þess skrifaði Hilmar bókina um Funa og Öldu Földu ásamt unnustu sinni Helgu Þóru Ármann. Nýjustu barnabækurnar um vinina Hávarð, Maríus og Bartek, Holupotvoríur alls staðar! og Dredfúlíur! Flýið! hafa hitt í mark hjá ungum lesendum. Hilmar skrifaði einnig blóðugu og hrollvekjandi unglingabókina Húsið í september og þýddi tvær fyrstu bækurnar um Tapper tvíburana eftir Geoff Rodkey.

Hugsjón IBBY samtakanna er sú að barnabókmenntir geti stuðlað að auknu umburðarlyndi. Fólk sem les sömu söguna á upp frá lestrinum eitthvað sameiginlegt. Með því að leyfa öllum grunnskólanemum landsins að hlusta samtímis á söguna stíga fjörutíu þúsund nemendur inn í sama heim á sama tíma.
Góða skemmtun!