IBBY er skammstöfun á enska heitinu The International Board on Books for Young People en það eru alþjóðleg samtök. IBBY deildir eru nú í 60 ríkjum víðs vegar um heim.
Íslandsdeild IBBY var stofnuð í Reykjavík árið 1985 og hafði hún það að aðalmarkmiði að stuðla á allan hátt að eflingu íslenskra barnabóka. Í fyrstu var henni gefið heitið Barnabókaráðið – Íslandsdeild IBBY en árið 1998 var því breytt í Börn og bækur – IBBY á Íslandi og að lokum í IBBY á Íslandi. Frá upphafi hefur starfið verið fjölþætt. Auk þátttöku í alþjóðlega starfinu og því sem fram fer innanlands er einnig samstarf milli norrænu deildanna sem gefa árlega út sameiginlegt tímarit, Nordisk blad. Fréttabréfið Börn og bækur leit dagsins ljós þegar á fyrsta ári. Það var í A5 umbroti og kom út tvisvar til þrisvar á ári. Haustið 1997 var það stækkað og hlaut nafnið Börn og menning. Það kemur nú út tvisvar á ári.
Íslandsdeildin hefur staðið fyrir margs konar samkomuhaldi í áranna rás: Árlega eru veittar viðurkenningar fyrir framlag til barnamenningar og hefur ærinn fjöldi listamanna og menningarstofnana notið þeirra. Kynningar á nýjum bókum voru lengi vel haldnar í upphafi jólabókavertíðar. Ráðstefnur í Gerðubergi hafa verið árlegur viðburður síðustu árin í samvinnu við Gerðuberg og nokkur félög sem koma á einhvern hátt að barna-og unglingabókum. Bókakaffi hefur verið haldið tvisvar sinnum á hverju ári sl. ár í samvinnu við SÍUNG, samtök barna- og unglingabókahöfunda innan Rithöfundasambandsins. Einnig hefur deildin verið þátttakandi í ýmsum ráðstefnum um barnabækur sem haldnar hafa verið í áranna rás.
Markmið samtakanna eru:
1. Að sameina þá aðila um allan heim sem vinna að framgangi góðra bóka fyrir börn og unglinga.
2. Að kynna og hvetja til útgáfu á framúrskarandi skáldverkum og myndverkum fyrir börn og unglinga. Að efla vöxt og viðgang listar og menntunar rithöfunda og listamanna með því að skipuleggja samkeppni, ráðstefnu og námskeið fyrir milligöngu hverrar landsdeildar IBBY.
3. Að efla útbreiðslu slíkra bóka og auðvelda aðgang að þeim:
a) með því að hvetja til framleiðslu barnabóka er uppfylli alþjóðlegar gæðakröfur.
b) með því að efla tengsl barna- og unglingabóka við aðra miðla, svo sem útvarp, sjónvarp, dagblöð, kvikmyndir og netmiðla.
c) með því að efla bókasafnsþjónustu fyrir börn.
4. Að stuðla að kynningu á barna- og unglingabókum á allan hátt.
5. Að stuðla að útbreiðslu bóka sem hafa alþjóðlegt gildi og hvetja til þýðinga.
6. Að eiga frumkvæði að rannsóknum á öllum þáttum barnabóka og myndskreytinga á barnabókum, efla slíkar rannsóknir á allan hátt og skipuleggja útgáfu þeirra á alþjóða vettvangi.
7. Að veita upplýsinga og ráðgjöf þeim einstaklingum, hópum, stofnunum og samtökum, sem vilja helga starfsemi sína að einhverju eða öllu leyti málefnum barnabóka, innanlands eða á erlendum vettvangi og leiðbeina þeim sem annast þjálfun bókasafnsfræðinga, kennara, útgefenda, rithöfunda og myndskreytingamanna á þessu sviði. (IBBY Statues, Clause I: Aims)
—
Stjórnin er alltaf opin fyrir fleiri hugmyndum. Sendu okkur tölvupóst ef þú veist af einhverju sem þér finnst að IBBY á Íslandi ætti að koma að með einum eða öðrum hætti.
IBBY á Íslandi
P.O. Box 4103
IS-124 Reykjavík
Netfang: ibby(at)ibby.is