Um IBBY

IBBY er skammstöfun á enska heitinu The International Board on Books for Young People en það eru alþjóðleg samtök. IBBY deildir eru nú í 60 ríkjum víðs vegar um heim.

Íslandsdeild IBBY var stofnuð í Reykjavík árið 1985 og hafði hún það að aðalmarkmiði að stuðla á allan hátt að eflingu íslenskra barnabóka. Í fyrstu var henni gefið heitið Barnabókaráðið – Íslandsdeild IBBY en árið 1998 var því breytt í Börn og bækur – IBBY á Íslandi og að lokum í IBBY á Íslandi. Frá upphafi hefur starfið verið fjölþætt. Auk þátttöku í alþjóðlega starfinu og því sem fram fer innanlands er einnig samstarf milli norrænu deildanna sem gefa árlega út sameiginlegt tímarit, Nordisk blad. Fréttabréfið Börn og bækur leit dagsins ljós þegar á fyrsta ári. Það var í A5 umbroti og kom út tvisvar til þrisvar á ári. Haustið 1997 var það stækkað og hlaut nafnið Börn og menning. Það kemur nú út tvisvar á ári.

Íslandsdeildin hefur staðið fyrir margs konar samkomuhaldi í áranna rás: Árlega eru veittar viðurkenningar fyrir framlag til barnamenningar og hefur ærinn fjöldi listamanna og menningarstofnana notið þeirra. Kynningar á nýjum bókum voru lengi vel haldnar í upphafi jólabókavertíðar. Ráðstefnur í Gerðubergi hafa verið árlegur viðburður síðustu árin í samvinnu við Gerðuberg og nokkur félög sem koma á einhvern hátt að barna-og unglingabókum. Bókakaffi hefur verið haldið tvisvar sinnum á hverju ári sl. ár í samvinnu við SÍUNG, samtök barna- og unglingabókahöfunda innan Rithöfundasambandsins. Einnig hefur deildin verið þátttakandi í ýmsum ráðstefnum um barnabækur sem haldnar hafa verið í áranna rás.

Stjórnin er alltaf opin fyrir fleiri hugmyndum. Sendu okkur tölvupóst ef þú veist af einhverju sem þér finnst að IBBY á Íslandi ætti að koma að með einum eða öðrum hætti.

IBBY á Íslandi
P.O. Box 4103
IS-124 Reykjavík

Netfang: ibby(at)ibby.is