
Vorvindar IBBY á Íslandi voru afhentir 26. maí síðastliðinn við hátíðlega athöfn á Borgarbókasafninu í Grófinni. Vorvindahafar ársins eru sem endranær eldhugar á sviði barnamenningar og fengu viðurkenninguna fyrir framlag sitt til málstaðarins. Það eru þær Embla Bachmann rithöfundur, Iðunn Arna myndhöfundur, Kvistur bókaútgáfa og Þórunn Arna Kristjánsdóttir leikstjóri og leikari. Við óskum Vorvindahöfum innilega til hamingju, þökkum þeim kærlega fyrir sitt framlag og vonum að Vorvindarnir verði þeim hvatning til frekari verka á sviði barnamenningar. Hér að neðan má lesa afhendingaræður sem voru lesnar við athöfnina.
IBBY á Íslandi veitir Þórunni Örnu Kristjánsdóttur viðurkenningu fyrir framlag til barnamenningar með metnaðarfullu starfi sem leikstjóri og leikgerðarhöfundur.
Þórunn Arna er fædd og uppalin á Ísafirði. Á bernskuárunum fyrir vestan stofnaði hún barnaleikritið Kátir krakkar ásamt vinkonu sinni og flutti þar leikrit, tónlist og ljóð fyrir bæjarbúa. Að stúdentsprófi loknu hóf Þórunn söngnám í Reykjavík og útskrifaðist frá tónlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2006. Því næst lá leiðin í leiklistina og 2010 hlaut Þórunn BFA-gráðu frá leiklistardeild Listaháskólans. Eftir útskrift var hún ráðin til Þjóðleikhússins en starfar nú í Borgarleikhúsinu.

Á starfsferli sínum hefur Þórunn Arna hlotið tilnefningar til Grímunnar fyrir bæði leik og söng. Auk þess að koma sjálf fram á sviði hefur hún einnig skrifað leikgerðir og leikstýrt og þar hefur hlutur barnasýninga orðið áberandi á síðustu árum. Leiksýning um hinn ástsæla Emil í Kattholti var frumsýnd í Borgarleikhúsinu í hennar leikstjórn 2021 og þegar komið var að lokasýningunni vorið 2023 höfðu farið fram alls hundrað sýningar fyrir fullu húsi. Haustið 2023 var barnasöngleikurinn Fíasól gefst aldrei upp frumsýndur í Borgarleikhúsinu. Sýningin er byggð á bókum Kristínar Helgu Gunnarsdóttur en Þórunn Arna leikstýrir og er jafnframt höfundar leikgerðarinnar ásamt Maríönnu Clöru Lúthersdóttur. Söngleikurinn hefur slegið í gegn og er tilnefndur til Grímunnar 2024 í flokknum Barnasýning ársins.
Fíasól gefst aldrei upp er kraftmikil og kærleiksrík sýning þar sem fram kemur fjölbreytilegur hópur barna, alls 21 talsins. Sýningin er unnin í miklu samstarfi við börnin í leikhópnum og hefur Þórunn Arna hlotið lof fyrir að leikstýra svo stórum krakkahóp með jafngóðum árangri. Í viðtölum sem tekin hafa verið við Þórunni í tengslum við sýninguna kemur skýrt fram að það er henni mikið hjartans mál að mæta börnunum þar sem þau eru stödd og með styrkleika þeirra í huga, skapa traust gegnum opinská og kærleiksrík samskipti og efla börnin sem einstaklinga með því að veita þeim rými til að þroska tilfinningagreind sína og móta og tjá sjálfstæðar skoðanir. Sýningin sjálf er í þessum sama anda. Kjarni hennar liggur í mikilvægi þess að börn hafi tækifæri og rými til að tjá skoðanir sínar, bæði um sína persónulegu hagi og um heiminn í kringum sig. Barnahópurinn í sýningunni, með Fíusól sjálfa í brennidepli, myndar ólgandi sköpunarkraft og samtakamátt sem smitast út af sviðinu og breiðist út á meðal áhorfendanna í salnum.
IBBY á Íslandi þakkar Þórunni Örnu fyrir öflugt framlag til barnamenningar með því að setja á svið góðar og valdeflandi barnasýningar og leggja sitt af mörkum í samfélagsumræðu um mikilvægi þess að raddir barna fái að heyrast. Allt útlit er fyrir að Þórunn muni áfram láta til sín taka í þágu barnaleikhúsmenningar á Íslandi og vonandi mun þessi viðurkenning verða henni aukin hvatning á því sviði.

Það eru margir stormsveipir í íslensku menningarlífi og Embla Bachmann er einn þeirra. Þessi unga kona stökk inn á íslenskan barnabókamarkað með bókinni sinni Stelpur stranglega bannaðar jólin 2023, þá aðeins 17 ára að aldri og sýndi öllum sem vilja skrifa að aldur skiptir engu máli. Bókin vakti mikla lukku hjá lesendum, enda nær Embla einstaklega vel til lesenda sinna. Eins og hún hefur sagt sjálf í viðtölum, það er ekki langt síðan hún var á sama aldri og markhópur hennar – börn á aldrinum 10-15 ára.
Embla einsetti sér að skrifa þegar hún var 11 ára gömul. Svo hún hefur haft sirka sjö ár til að fínpússa hæfnina. Það er nokkuð áhrifamikið að sjá svo ungan höfund segja sér markmið sem þetta og það er greinilegt að í gegnum árin hefur Embla lagt sig alla fram við að verða betri og öflugri í skrifum sínum. Hún hefur margoft tekið þátt í ljóða- og smásagnakeppni Ingunnarskóla og hlaut viðurkenningu fyrir sín framlög árin 2015, 2017, 2018 og 2019. Geri aðrir betur! Hún tók einnig þátt í Stóru upplestrarkeppninni árið 2019 fyrir hönd Ingunnarskóla. Árið 2021 tók Embla þátt í Skrekk með ljóðaframlagi. Hún átti söguna Rófulausi hundurinn og hárlausi kötturinn í rafbókinni RISAstórar smáSÖGUR sem Menntamálastofnun gaf út í samstarfi við KrakkaRÚV sem rafbók árið 2018.
Með þessa ferilskrá að baki held ég að það hafi ekki komið neinum á óvart þegar Embla hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barna- og ungmennabóka. Þá komin í hóp topp fimm íslenskra barnabókahöfunda! Flestar fyrirsagnir í fréttamiðlum eftir kvöldið sögðu „Sú yngsta til að hljóta tilnefningu“. Sem er satt og rétt.
En Embla vill láta meira gott af sér leiða og hefur haldið áfram að láta sig barnabókmenntir varða. Í dag stýrir hún útvarpsþáttunum Hvað ertu að lesa? á Rás 1 ásamt Karitas M Bjarkadóttur. Þættirnir fjalla um barnabókmenntir úr öllum áttum með börnum og lesendum. Það er því með mikilli gleði sem við veitum Emblu Vorvindaviðurkenningu IBBY í ár. Takk fyrir þitt starf og við bíðum eftir fleiri bókum og fleiri fréttum af ævintýrum Emblu.

IBBY á Íslandi veitir bókaútgáfunni Kvisti viðurkenningu fyrir framlag sitt til barnamenningar á Íslandi.
Það vakti gleði margra þegar bækurnar um félagana Pétur og Brand birtust aftur í hillum bókaverslanna. Sögurnar um köttinn og karlinn höfðu verið ófáanlegar um árabil og þau fáu eintök sem gengu á milli fólks seldust dýrum dómum eða lágu sundurlesin og tætt í bókasöfnum.
Það var Ásta Halldóra Ólafsdóttir, stofnandi Kvists bókaútgáfu, og einn af fjölmörgum aðdáendum Péturs og Brands, sem hitti þarna naglann á höfuðið þegar hún gaf út bókina Pétur tjaldar árið 2021. Bókin seldist fljótt upp. Síðan Pétur og Brandur tjölduðu hafa komið út átta bækur um þá félaga hjá Kvisti bókútgáfu. Bækurnar hafa vakið mikla lukku meðal lesenda, bæði hjá foreldrum, sem gleðjast yfir hlýjum endurfundum og börnum sem gleyma sér í myndunum og sögunum um Pétur og Brand.
Frá fyrsta degi hefur Kvistur bókaútgáfa lagt metnað sinn í að gefa út vandaðar, þýddar, myndríkar bækur sem eru fyrst og fremst skemmtilegar. Kvistur hefur lagt áherslu að gefa út bókaflokka svo að lesendur hafi tækifæri til að kynnast og lesa fleiri bækur um sínar uppáhalds persónur.
Síðast en ekki síst þá leggur Kvistur mikinn metnað í þýðingarnar, að þær séu á vandaðri, góðri og fjölbreyttri íslensku og eftir því hefur verið tekið. Í fyrra hlutu tvær bækur frá útgáfunni af fimm tilnefndum tilnefningu til barnabókaverðlauna Reykjavíkur fyrir þýðingar og fékk bókin Einu sinni var Mörgæs í þýðinu Baldvins Ottó Guðjónssonar verðlaunin. Í ár voru þrjár bækur frá Kvisti tilnefndar til verðlaunanna og hlaut bókin Tannburstunardagurinn mikli í þýðingu Ástu Halldóru Ólafsdóttur verðlaunin.
Á einungis þremur árum hefur Kvistur útgáfa skapað sér stóran sess í barnabókaútgáfunni og hafa alls 17 bækur komið út hjá útgáfunni og stefnir Kvistur á að gefa út 8 bækur á þessu ári. Það má segja að Kvistur bókaútgáfa hafi komið eins og stormsveipur inn í íslenska barnabókaútgáfu með metnaðarfullri útgáfu sem hefur fært börnum og fjölskyldum þeirra dýrmætar lestrarstundir. Fyrir það erum við í IBBY á Íslandi afar þakklát fyrir og þökkum Kvisti bókaútgáfu kærlega fyrir sitt framlag til barnamenningar á Íslandi.

IBBY á Íslandi veitir Iðunni Örnu Björgvinsdóttur viðurkenningu fyrir framlag til barnamenningar en hún hefur á örfáum árum skipað sér í fremstu röð myndhöfunda hvort sem um er að ræða yndislestrarbækur eða námsefni fyrir börn.
Iðunn Arna er fædd árið 1989 og býr ásamt fjölskyldu sinni í Reykjavík. Hún stúderaði bókmenntir í Háskóla Ísland þar sem hún heillaðist alveg sérstaklega af barnabókmenntum. Næst lá leið Iðunnar Örnu erlendis þar sem hún bætti við sig námi í myndlýsingu, bókbandi og umbroti og eftir heimkomuna hefur hún unnið við draumastarfið, að myndlýsa barnabækur.
Segja má að Iðunn hafi komið eins og stormsveipur inn á íslenskan barnabókamarkað því að frá því að flugvélin lenti með hana innanborðs hér heima árið 2019 hefur hún myndskreytt hvorki meira né minna en 21 bók.
Bókin Hvuttasveinar eftir Ásrúnu Magnúsdóttur var fyrsta myndIýsingarverk Iðunnar og í kjölfarið kom út Ævintýri Munda Lunda eftir sama höfund. Næst vann Iðunn Arna að bókinni Litla gula hænan eftir Steingrím Arason en um er að ræða endurgerðar, Iagfærðar og Iitaðar myndir eftir gömlu klassísku kennslubókinni. Hin bráðskemmtilega BrásóI Brella á Iðunni útlit sitt og sposkan svip að þakka en hún hefur túlkað ungnornina í tveimur útgefnum bókum, einnig eftir Ásrúnu Magnúsdóttur.
Í samvinnu við Yrsu Þöll Gylfadóttur rithöfund hefur Iðunn Arna skapað margvíslegar persónur fyrir bókaflokkinn Bekkurinn minn en það eru geysivinsælar bækur fyrir yngstu lesendurna. Bókaflokkurinn kemur út í tveimur þyngdarflokkum og telur í dag 12 bækur. Þær hafa sterka tengingu við íslenskt nútímasamfélag og umhverfi lesenda, og fjalla um allt frá samtímaefni og kennslu yfir í fantasíur. Myndirnar eru vandaðar og líflegar, og uppsetningin á bókunum bæði falleg og aðgengileg.
Árið 2019 hóf Iðunn Arna að myndskreyta námsefnið Halló heimur fyrir Menntamálastofnun, nú Miðstöð menntunar og skólaþjónustu en höfundar eru Jónella Sigurjónsdóttir og Unnur María Sólmundsdóttir. Um er að ræða fjögurra bóka námsefni í náttúru- og samfélagsfræðigreinum ásamt vinnubókum. Í þeirri vinnu hefur Iðunn Arna tekið að sér níu börn sem stofnað hafa Grúskfélag og fylgt þeim eftir í ótal uppátækjum og ævintýrum. Þar leysir Iðunn hverja áskorunina á fætur annarri og á sama tíma og hún þarf að túlka börnin í gleði, sorg og öllum tilfinningaskalanum (að ógleymdum kennara barnanna og margvíslegum svipbrigðum og líkamstjáningum sem uppátæki þeirra valda) þarf Iðunn einnig að fylgja þeim eftir í þroska og túlka frá 6-9 ára aldurs.
Myndirnar hennar Iðunnar eru sérlega fallegar og aðgengilegar, stíllinn er hreinn, litirnir bjartir og skýrar útlínur. Í verkum sínum hefur hún náð að halda einkennum fjölda sögupersóna og dýrateikningar virðast vera sérlegur styrkleikur hennar.
Það er auðvelt að vinna með Iðunni, á einhvern undraverðan hátt fangar hún hugmyndariss, uppskriftakrass og þankahríðir textahöfunda, og setur í merkingabært myndrænt form þar sem að grunnhugmyndir fá ekki bara að malla við stofuhita heldur les Iðunn á milli línanna, gefur þeim nýjar víddir, hristir saman við áður útkomið efni, hrærir svolítið upp í þeim og reiðir loks fram með dass af galsa og glás af glettni.
Með innsæi, fagmennsku, frumkvæði, vel samsettum litapalletum og góðum húmor hefur Iðunn Arna skapað sér nafn og stöðu meðal íslenskra myndhöfunda sem tekið er eftir. Á háskólaárunum heillaðist Iðunn Arna af barnabókmenntum sem fyrr segir og valdi sér starfsvettvang í kjölfarið. Í dag heillar hún okkur hin með framlagi sínu til barnabókmennta. IBBY á Íslandi þakkar Iðunni Örnu fyrir þetta framlag og vonar að viðurkenningin, Vorvindar, verði henni hvatning til áframhaldandi starfa í þágu barna og barnamenningar.
You must be logged in to post a comment.