Vorvindar IBBY 2025

Vorvindar IBBY á Íslandi voru afhentir 17. maí síðastliðinn við hátíðlega athöfn á Borgarbókasafninu í Grófinni. Vorvindahafar ársins eru sem endranær eldhugar á sviði barnamenningar og fengu viðurkenninguna fyrir framlag sitt til málstaðarins. Það eru þau Tindur Lilja mynd- og rithöfundur, Jóhanna Sveinsdóttir rithöfundur og bókaklúbburinn Köttur úti í mýri. Við óskum Vorvindahöfum innilega til hamingju, þökkum þeim kærlega fyrir sitt framlag og vonum að Vorvindarnir verði þeim hvatning til frekari verka á sviði barnamenningar. Hér að neðan má lesa afhendingaræður sem voru lesnar við athöfnina.

Vorvindar lógó

Tindur Lilja

IBBY á Íslandi veitir Tindi Lilju viðurkenningu fyrir framlag sitt til barnamenningar á Íslandi. Það er alltaf ánægjulegt þegar nýr höfundur stígur fram með verk sem börn geta speglað sig í – í gegnum góða sögu. Það gerði Tindur Lilja einmitt þegar hán gaf út sína fyrstu myndlýstu barnabók, Bangsi fer út að leika, á síðasta ári.

Bókin kom út hjá Bókabeitunni og vakti strax athygli fyrir fallega frásögn úr hversdeginum sem er rík af myndmáli. Myndirnar sýna kunnuglegt umhverfi: runna, fífla og önnur blóm sem ég kann ekki að nefna, leikskólahliðið og leiktækin, ærslabelginn og borgarbekkinn. Teiknistíllinn, litavalið og áferðin gefa sögunni einstaklega notalegan og ljúfan blæ. Á hverri opnu er margt að sjá, og bjartir, hlýir litir fanga augað við hvert smáatriði. Við fylgjumst með því hvernig bangsi smám saman tapar útifötunum sínum í leiknum – og hvernig hver flík endar í vasa pabba.

Bangsi fer út að leika er glæsileg frumraun hjá Tindi Lilju, sem nær að heilla bæði unga og eldri lesendur. IBBY á Íslandi veitir Tindi Lilju Vorvindaviðurkenninguna 2025 fyrir þetta fallega framlag til barnamenningar. Við hlökkum til að fylgjast með næstu skrefum háns á sviði barnabókmenntanna.

Jóhanna Sveinsdóttir

IBBY á Íslandi veitir Jóhönnu Sveinsdóttur, rithöfundi, Vorvindaviðurkenningu  fyrir framlag sitt til barnamenningar. Með ungmennabók sinni Hvíti ásinn hefur hún hleypt ferskum vindum inn á bókamarkað. Með viðurkenningunni viljum við hvetja Jóhönnu til enn frekari dáða og skrifa meira inn í þann mikilvæga bókaflokk sem ungmennabækur eru.

Í nýjasta tölublaði Barna og menningar fjallar Karitas M. Bjarkadóttir um bókina Hvíta ásinn. Þar setur hún bókina í flokk með ekki ómerkari bókum en Harry Potter, Goðheimum og Percy Jackson. Í bókinni Hvíti ásinn fléttar Jóhanna listilega saman Völuspá, norrænni goðafræði og spennandi söguþræði.

Síðustu 15 ár hefur Jóhanna starfað við upplýsingamiðlun og sem skapandi texta- og hugmyndasmiður fyrir auglýsingastofur. Orðin hennar eru því út um allt í umhverfi okkar án þess að við gerum okkur grein fyrir því.

Jóhönnu hefur lengi langað til að verða rithöfundur og heimur barnabókmennta hefur alltaf heillað. Sem barn fann hún fyrirmyndir í Guðrúnu Helgadóttur, Sigrúnu Eldjárn, Astrid Lindgren og fleiri höfundum. Þeir færðu henni ekki bara skemmtun og spennu – heldur líka innsýn inn í nýja heima, inn í gleði og sorgir sem fylgja öllum mannverum, inn í vont og gott eðli, vináttu og hugrekki. Það er fagnaðarefni þegar nýr barna- og unglingabókahöfundur stígur fram af öryggi og ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Við vonum svo sannarlega að draumur Jóhönnu um að geta skilið eftir sig trausta vini í bókahillum barna sem þau geti alltaf leitað til eftir svörum um lífið eða til að gleyma sér í og hafa gaman, muni rætast.

Köttur úti í mýri

IBBY á Íslandi veitir bókaklúbbnum Köttur úti í mýri Vorvindaviðurkenningu fyrir framlag sitt til barnamenningar.

Á köldum desemberdegi í fyrra var haldin Jólabókamessa barnanna á Grundarfirði. Þessi Jólabókamessa var merkileg fyrir margar sakir, en þá kannski helst fyrir það að þarna voru börnin í aðalhlutverki og fengu að segja sína skoðun á bókunum. Fjórum höfundum var boðið í heimsókn, þrjú börn lásu hverja bók, umræðustjóri sat á sviðinu á milli barnanna og höfundarins og svo fengu börnin að spyrja höfundana spjörunum úr. Önnur börn skólans höfðu unnið að bókakynningum sem héngu um alla veggi samkomuhússins á Grundarfirði og í andrúmsloftinu var almenn lestrargleði og spenna fyrir bókum.

Viðburðurinn var afskaplega lestrarhvetjandi og rann undan rifjum Skólabókasafnsins í Grunnskóla Grundafjarðar og var styrkt af Grunnskólanum sjálfum. En þegar við fórum að hnýsast enn betur í það hverjir stóðu í raun á bak við verkefnið þá kom í ljós að á bak við allt saman stendur þéttur hópur kvenna í bókaklúbbnum Köttur úti í mýri. Þar voru sjálfboðaliðarnir sem keyrðu áfram verkefnið; helltu upp á kaffið, röðuðu stólum, hengdu upp myndir, stjórnuðu umræðum á sviðinu og sinntu öllum öðrum smávægilegum störfum sem sinna þarf til að viðburður sem þessi geti farið fram. Allt unnið í sjálfboðastarfi og af einskærri gleði fyrir lestri og bókum.

Í klúbbnum eru 12 konur sem brenna fyrir lestri. Og þær smita áhuganum út frá sér. Fyrir síðustu jól báru þær til dæmis Bókatíðindi í hús á Grundarfirði. Til þess að börn fái áhuga á bókum þarf fullorðna fólkið í kringum þau að sýna bókum áhuga. En það þarf líka að sína lestri barnanna áhuga, virða þeirra skoðunum og gefa þeim rödd og svið til að tjá sín hugðarefni og vangaveltur. Og Bókaklúbbur eins og Köttur úti í mýri hefur sýnt og sannað að úr lítilli hugmynd getur eitthvað stórkostlegt orðið til.