
Í tilefni dags barnabókarinnar sem haldinn er hátíðlegur ár hvert gefur barnamenningarfélagið IBBY út smásögu til allra barna á Íslandi.
Embla Bachman rithöfundur og handhafi Vorvinda IBBY 2024 sem skrifaði smásöguna Þetta reddast … eða hvað? sem birtist í apríl 2025.
Unnur María Sólmundardóttir hefur útbúið námsefni sem er aðgengilegt öllum á vefnum https://kennarinn.is/ibby/
Söguna er hægt að finna sækja á pdf eða lesa hér að neðan:
Þetta reddast … eða hvað?
„Af hverju hættirðu ekki bara í fótboltanum?“ spurði Arnar litlu systur sína á meðan þau gengu yfir götuna.
„Því það eru miklu skemmtilegri stelpur í fótboltanum þó mér finnist handbolti skemmtilegri íþrótt,“ svaraði Hrafnhildur og veifaði bílstjóranum sem hafði stoppað fyrir þeim.
„Ég skil,“ sagði Arnar en klóraði sér í aflitaða hárinu því satt að segja skildi hann ekki alveg. Hann myndi alltaf velja skemmtilegri íþróttina umfram aðeins skemmtilegra fólk. „En geturðu ekki bara haldið áfram í báðum íþróttunum?‘‘
„Nei, það er svo mikið að gera í tveimur íþróttum,‘‘ sagði Hrafnhildur og gekk þunglamalega fram hjá ruslatunnum og ljósastaurum.
„Viltu þá ekki bara hætta í báðum?‘‘ spurði Arnar næst og fannst það hljóma eins og skítsæmileg lausn á málinu.
„Nei, þá hef ég ekkert að gera eftir skóla,‘‘ sagði Hrafnhildur og lagði áherslu á orðið ekkert. „Mig langar ekki að æfa tvær íþróttir en mig langar heldur ekki að æfa ekki neitt. Mig langar bara að æfa eitthvað eitt.‘‘
„Geturðu ekki bara valið einhverja aðra íþrótt svo þú þurfir ekki að gera upp á milli þessara tveggja?‘‘ spurði Arnar og reyndi að rifja upp íþróttir sem gætu hentað. „Til dæmis frjálsar, dans eða skák?‘‘
Hrafnhildur ranghvolfdi augunum því ekkert af þessu hljómaði eins og eitthvað sem hún gæti séð fyrir sér að æfa. Hún færði því umræðuna yfir í áhugamál Arnars.
„Hvernig gengur þér að æfa tölvuleiki?“ spurði Hrafnhildur sem gat ekki munað að það sem Arnar æfði hét rafíþróttir. Arnar nennti ekki að leiðrétta hana í þetta sinn.
„Bara vel sko,“ svaraði hann og opnaði hliðið að leikskólanum. „Það er bæði skemmtileg íþrótt og með skemmtilegu fólki.“
Hrafnhildur dæsti yfir því að þurfa á velja á milli skemmtilegri íþróttarinnar og skemmtilegri liðsfélaga. Hún velti sér þó ekki meira upp úr því í bili þar sem þau gengu inn í leikskólann.
Systkinin voru nýlega farin að sækja Orra, litla bróður sinn, tvisvar í viku til að létta álagið á foreldrum sínum. Þennan dag langaði Hrafnhildi miklu frekar að hitta vina sína og Arnar hefði frekar kosið að spila tölvuleiki en þeim datt ekki í hug að segja það upphátt. Andrúmsloftið heima hafði verið þungt upp á síðkastið. Pabbi fékk ekki stöðuhækkunina sem hann bjóst við og mamma var á milli verkefna. Þau reyndu að fara leynt með erfiðleikana og báðu krakkana ekki um mikla hjálp fyrir utan það að sækja Orra.
Glaðlyndur leikskólakennari heilsaði og benti á Orra sem sat einbeittur að púsla. Þegar þau komu fram í fatahengið byrjaði hann að mótmæla.
„Ekki úlpu,“ sagði Orri og bandaði frá sér. „Bara vera á bumbunni.“
Arnar tók það ekki í mál að Orri færi út á bumbunni því úti var napurt þó glitti í sólina af og til. Þeir gerðu samning um að Orri fengi að sleppa úlpunni en yrði áfram í peysunni. Svo lögðu systkinin þrjú saman af stað heim á leið.
Á leiðinni pípti síminn hjá bæði Arnari og Hrafnhildi. Arnar átti stærri síma en Hrafnhildur og með snertiskjá, enda var hann fimm árum eldri. Þrátt fyrir ólíka síma fengu þau sömu skilaboð á skjáinn.
KOMUM EKKI HEIM FYRR EN UM KVÖLDMATARLEYTIÐ
PLOKKFISKUR INNI Í ÍSSKÁP EF ÞIÐ VERÐIÐ SVÖNG
KV. MAMMA OG PABBI
„Veistu hvar þau eru?“ spurði Hrafnhildur eldri bróður sinn en þegar hann yppti öxlum tók sá yngri við því að svara.
„Í Vesturbænum,“ sagði Orri og hélt áfram að sparka steinum á undan sér.
Arnar og Hrafnhildur litu forviða á hvort annað. Svo sprungu þau úr hlátri.
„Það er satt,“ sagði Orri sem lét sig lítið varða hláturinn. „Hjá einhvern skrýtinn karl.“
Arnar og Hrafnhildur litu aftur á hvort annað en hlógu ekki í þetta sinn.
„Hvað ertu að segja Orri?“ spurði Hrafnhildur sem tók því sem fjögurra ára leikskólabarnið sagði með fyrirvara.
„Mamma og pabba eru í Vesturbænum hjá skrýtinn karl,“ sagði Orri, handviss í sinni sök.
Arnar og Hrafnhildur vissu bæði að Orri var gjarn á að bulla. En þau vissu líka að hann breytti gjarnan sögunni eða gleymdi hvað hann sagði svo það var oftast auðvelt að spotta þegar hann skáldaði eitthvað. Þess vegna fannst þeim undarlegt hvað hann var staðfastur. Þau pældu hins vegar ekki meira í því fyrr en seinna þennan dag.
Klukkan var orðin hálfsjö þegar Arnar hitaði upp plokkfisk. Enn bólaði ekkert á mömmu og pabba. Fjölskyldan var vön að borða um sexleytið svo þegar vísirinn fór að fikra sig nær sjö var Hrafnhildur farin að hafa áhyggjur.
„Hvar eru þau?“ spurði hún ögn óþreyjufull á meðan hún lagði á borð.
„Þau eru í Vesturbænum!“ kallaði Orri úr leikhorninu í stofunni. „Þessi skrýtni kall sem þau eru með segir: Ég heiti Siggi og þetta er ekkert grín!“
Hrafnhildur lagði frá sér diskastaflann og Arnar hætti að fikta í ofninum. Það var óvenjulegt að Orri gat endurtekið sömu tugguna aftur og aftur.
„Hvar heyrðirðu þetta?“ spurði Hrafnhildur en Orri svaraði henni ekki.
Hrafnhildur endurtók spurningu og þá leit Orri upp frá kubbunum. „Mamma og pabbi sagði mér þetta,“ sagði hann öruggur. „Þau segir líka að þetta sé leyndarmál.‘‘
Hrafnhildur leit undrandi á Arnar. Orðið „leyndarmál‘‘ var reyndar í miklu uppáhaldi hjá Orra sem þóttist eiga leyndarmál með nágrönnum sem hann hafði aldrei hitt og kisunni sem læddist í kringum húsið þeirra á kvöldin. Hins vegar gat hann aldrei sagt hver leyndarmálin voru svo þau tóku því aldrei alvarlega. Það var samt eitthvað við það hvað hann var staðfastur og ákveðinn að þau gátu ekki annað en tekið mark á honum í þetta sinn.
„Ég man ekki eftir neinum sem mamma og pabbi þekkja í Vesturbænum,“ sagði Arnar hugsi. „Og ég þekki heldur engan Sigga sem er vinur þeirra.“
Hrafnhildur fann magann herpast örlítið saman.
„Hvað ef þessi Siggi er ekki vinur þeirra … „ sagði Hrafnhildur og reyndi að kyngja hræðslunni. „ … ef hann er að segja við mömmu og pabba að þetta sé ekkert grín gæti hann verið eitthvað vondur.“
Hrafnhildur vonaði að Arnar myndi skellihlæja að þessari kenningu og segja henni að hætta þessari vitleysu. En hann gerði það ekki. Þvert á móti varð hann brúnaþungur og enn meira hugsi.
„Orri, veistu hver þessi Siggi er?“ spurði Arnar og settist niður á bílamottuna hjá Orra.
„Hann er með rosalega bumbu!“ sagði Orri og sýndi með látbragði hvernig maður er með stóra bumbu.
„Og hvað meira?“ spurði Arnar sem vissi að það gagnaðist þeim lítið að vita hversu stóra bumbu maðurinn væri með. Þau þyrftu fleiri upplýsingar um manninn til að átta sig betur á stöðunni og til að geta metið hvort einhver hætta steðjaði að.
Orri setti vísifingur á hökuna og setti upp svip eins og hann hafði séð einhvern gera í barnaefni.
„Sko,“ sagði hann eftir örlitla umhugsun. „Hann heitir sko Siggi stóri og verður alveg brjálað og skammar börnin sín,“ svaraði Orri og sýndi systkinum sínum hvernig hann skammar þau.
„Af hverju skammar hann börnin sín?‘‘ spurði Hrafnhildur sem var líka sest á bílamottuna.
„Af því bara,‘‘ sagði Orri og yppti öxlum.
„Voru mamma og pabbi að segja þér þetta?‘‘ spurði Arnar fullur af efasemdum.
Orri kinkaði kolli og hélt svo áfram að leika með kubbana sína. Það liðu nokkrar sekúndur í þögn áður en hann hélt áfram: „Svo kom lögginn bara á löggihjóli.“
Arnari og Hrafnhildi leist ekki lengur á blikuna. Maður sem var greinilega ekki mikið fyrir grín og skammar börnin sín það mikið að löggan þarf að hafa afskipti af honum.
„Heldurðu að mamma og pabbi séu í hættu?“ hvíslaði Hrafnhildur að bróður sínum.
„Það gæti verið,“ svaraði Arnar hikandi. Hann tók upp tölvuna sína og byrjaði að leita uppi þennan Sigga stóra.
Ýmsir menn komu upp við leitina. Íþróttamenn, viðskiptamenn og stjórnmálamenn. Sumir höfðu hlotið viðurnefnið út af hæð, aðrir út af þyngd og enn aðrir vegna ríkidæmis eða umsvifa í viðskiptum. Eftir þónokkra leit á veraldarvefnum, rákust systkinin á frétt um glæpamann að nafni Siggi sem átti það sameiginlegt með hinum mönnunum að hafa hlotið viðurnefnið stóri.
Þessi Siggi stóri hafði hlotið nokkra þunga dóma og setið inni í fangelsi í fjölda ára. Fram kom að hann hefði lokið síðustu afplánun í byrjun árs og gengi nú laus. Afbrotalistinn var langur og fjölbreyttur. Taldir voru upp dómar fyrir rán, ofbeldi og ólöglegan innflutning. Einnig voru taldir upp fjölmargir dómar sem tengdust fjármálaglæpum eins og fjárdráttur, skattsvik og peningaþvætti. Arnar vissi ekki hvað þetta allt þýddi en hann vissi að mömmu og pabba skorti peninga þessa dagana. Hann hugleiddi hvort þau ættu mögulega í skuggalegum viðskiptum við þennan glæpamann. Hann var allavega ekki lengur jafn viss um að Orri væri að bulla.
„Ókei, þetta er allt í lagi,“ sagði Hrafnhildur og reyndi að hljóma sannfærandi þó hún ætti erfitt með að sannfæra sjálfa sig.
„Jájájá, algjörlega,“ sagði Arnar sem var alveg jafn hræddur og litla systir sín.
Um stund sátu systkinin í algjörri þögn þar sem Arnar klóraði sér í hausnum, Hrafnhildur vaggaði sér örlítið fram og til baka og Orri byggði höll með sundlaug og nammilandi úr kubbunum sínum.
Þegar ofninn pípti og plokkfiskurinn var tilbúinn fóru þau að velta fyrir sér hvað þau ættu að gera. Klukkan var nú orðin sjö og foreldrar þeirra höfðu enn engin skilaboð sent. Þau prófuðu að hringja en hvorugt svaraði.
„Orri, ertu að segja alveg satt um þennan Sigga?‘‘ spurði Hrafnhildur og horfði alvörugefin á Orra á meðan hún leiddi hann inn í eldhús.
„Já, þetta er það sem þau sagði,‘‘ sagði Orri jafn alvörugefinn og settist við borðið.
„Arnar, eigum við að hringja í lögguna?‘‘ spurði Hrafnhildur á meðan hún setti mat á disk fyrir Orra.
„Nei,‘‘ sagði Arnar og settist við eldhúsborðið.
„Heldurðu að þetta sé bara eitthvað bull í Orra sem við ættum að hætta að pæla í?‘‘ hélt hún áfram.
„Nei,‘‘ sagði Arnar aftur.
„Ókei, þannig þú vilt ekki hringja í lögguna en þú vilt heldur ekki gera ekki neitt?‘‘ spurði Hrafnhildur og fékk sér bita af rúgbrauði á meðan hún beið eftir svari frá bróður sínum.
„Sko, við vitum ekki fyrir víst að þetta sé satt en líkurnar eru einhverjar og bara það að líkurnar séu einhverjar segir okkur að við þurfum að gera eitthvað,‘‘ sagði Arnar hugsi. „Þetta er ekki nógu stórt til að hringja á lögguna en ekki nógu lítið til að gera ekki neitt.‘‘
Hrafnhildur beið eftir niðurstöðu í þessa ítarlegu greiningu bróður síns á meðan þau kláruðu að borða.
„Sko,‘‘ sagði Arnar og stóð upp. „Við þurfum bara að athuga málið sjálf.“
Hrafnhildur stökk á fætur og dró Orra með sér í anddyrið. Arnar var þegar farinn að klæða sig í dúnúlpu, strigaskó og vettlinga. Því næst klæddi hann Orra í útiföt og á meðan klæddi Hrafnhildur sig, þó hún vissi enn ekki hvað Arnar hafði í huga.
Þegar þau gengu í átt að strætóskýli var Hrafnhildur fljót að leggja saman tvo og tvo. Sólin var sest svo það var aðeins kaldari en fyrr um daginn. Hrafnhildur togaði húfuna niður fyrir eyrun og sótti fingravettlinga í úlpuvasann. Það var þá allavega þurrt, ólíkt dagana á undan.
„Strætó er miklu meiri gaman en að lúlla,“ sagði Orri hæstánægður. „Mamma og pabbi heldur alltaf að ég þurfi að lúlla.“
Um leið áttaði Arnar sig á að hann gæti ekki dröslað fjögurra ára barni í strætó svona seint. Klukkan var orðin átta svo háttatíminn hans Orra var í raun núna. Strætóferð í Vesturbæinn og til baka tæki heillangan tíma, sérstaklega þar sem þau höfðu rétt svo misst af síðasta vagni.
Þau máttu engan tíma missa ef foreldrar þeirra voru í klóm glæpamanns. Þess vegna tók Arnar upp símann og hringdi í frænda þeirra sem var þremur árum eldri en hann og nýkominn með bílpróf.
„Blessaður litli frændz,“ sagði Krissi frændi í símann.
„Hæ, hérna …“ byrjaði Arnar og reyndi að finna réttu orðin. „Ekki ertu laus til að skutla mér, Hrafnhildi og Orra smá?“
„Hvað heldur þú maður?“ svaraði Krissi og Arnar óttaðist að svarið væri nei. „Auddað! Það verður að nýta þetta bílpróf sko, veistu hvað ég hafði mikið fyrir því? Féll þrisvar á bóklega og rétt svo náði í fjórða.“
„Geturðu komið núna?“ spurði Arnar vongóður.
„Ég er að setjast í bílstjórasætið núna,“ svaraði Krissi og skellti á.
Arnar rétt náði að segja systkinum sínum frá breyttu plani áður en Krissi spólaði inn á fráreinina við strætóskýlið. Samt bjó hann í allavega tíu mínútna fjarlægð. Arnar vildi ekki vita hvernig hann fór að því.
Krissi var á skærbláum bíl með fjórum varadekkjum og glugga aftur í sem ekki var hægt að loka. Einkanúmerið á bílnum var dæmi um enn annan hlut sem stakk í augun. Á númeraplötum bæði að framan og aftan stóð: BÍLL. Arnar og Hrafnhildur þurftu ekki að líta á hvort annað til að vita að þau voru að hugsa það sama. Hversu tilgangslaust bílnúmer? Arnar vonaði að Krissi hefði ekki borgað marga þúsund kalla fyrir þessar númeraplötur.
Hrafnhildur settist með Orra aftur í og fattaði þá að í bílnum var auðvitað enginn barnabílstóll. Hún vissi að það var mjög hættulegt fyrir lítil börn að vera ekki í stól og hugleiddi að snúa heim og bíða þar með Orra. Hún var samt fljót að afskrifa þann möguleika því hana dauðlangaði með. Dagarnir voru vanalega bara skóli og æfingar til skiptis svo hún ætlaði sko ekki að missa af þessari háskaför.
Hrafnhildur leysti vandamálið með því að teygja sig í sjúskaðan kodda úr skottinu sem hún skipaði Orra að setjast á. Hún treysti koddanum samt ekki fullkomlega svo hún ríghélt í litla bróður sinn á meðan bíllinn sveiflaðist fram og til baka á ógnarhraða.
Orri sýndi engin merki um þreytu. Ef eitthvað var hann bara hressari en áður. Hann vildi að allir í bílnum færu í leiki eins og Frúin í Hamborg og Gulur bíll. Hann var engan veginn að skilja að systkini hans voru að elta uppi glæpamann.
„Þú mátt velja lög,“ sagði Krissi til að sleppa við leikina og tók á sama tíma u-beygju og rétti Hrafnhildi símann. Hún spurði Orra hvaða lög hann vildi heyra og hann valdi fjölda laga, til dæmis Glaðasti hundur í heimi og Baby Shark.
Arnar og Hrafnhildur gleymdu um stund að hafa áhyggjur af foreldrum sínum því lögin sem Orri valdi voru sum svo fyndin og vöktu upp mikla nostalgíu. Þau rifjuðu hins vegar upp tilgang ferðalagsins þegar Krissi spurði hvert förinni væri heitið.
„Í Vesturbæinn,“ sagði Hrafnhildur og hélt fyrir augun á meðan Krissi tók fram úr þremur bílum í einu, á hringtorgi!
„Hvert í Vesturbæinn?“ spurði Krissi og þá áttuðu Arnar og Hrafnhildur sig á hvað þetta var fáránleg hugmynd. Hvernig ætluðu þau að bjarga foreldrum sínum frá alræmdum glæpamanni þegar þau vissu ekki einu sinni hvar þau voru niðurkomin?
„Bíddu aðeins, við þurfum að finna út úr því,“ sagði Arnar vandræðalegur og byrjaði aftur að leita á netinu. Í þetta sinn að heimilisfangi glæpamannsins Sigga stóra.
Á meðan hélt Hrafnhildur áfram að reyna að hringja í foreldra sína, án árangurs. Það var slökkt á símanum hans pabba en hjá mömmu hringdi bara út. Hrafnhildur sá fyrir sér mömmu sína bundna við stól, hjálparvana að fylgjast með símanum hringja en geta ekki svarað. Hrafnhildur kreisti aftur augun til að fella ekki tár. Hún ætlaði ekki að gráta, bara bjarga foreldrum sínum. Auk þess myndu tárin hvort sem er bara fjúka burt því hún sat við gluggann sem var ekki hægt að loka.
Arnar fann fullt nafn Sigga á Íslendingabók og leitaði svo á ja.is að heimilisfangi. Krissi keyrði svo hratt að þau komust á óvanalega stuttum tíma í Vesturbæinn. Krakkarnir urðu að hafa hraðar hendur til að finna rétt heimilisfang í tæka tíð.
Kagginn hans Krissa renndi sér yfir bæjarmörk Vesturbæjar og á sama tíma hrópaði Arnar upp heimilisfang Sigga stóra. Þegar hann las það upp byrjaði Prumpulagið, eitt af lögunum sem Orri hafði valið, að spilast.
„Í Vesturbænum býr skrýtinn karl,‘‘ byrjaði Doktor Gunni að syngja og hélt áfram. „Hann er með rosalega bumbu …‘‘
Hrafnhildur sleppti takinu á Orra í fyrsta sinn í bílferðinni. Hún hallaði sér fram í sætinu og bað Krissa að hækka í útvarpinu.
„Fullorðna fólkið það varð brjálað, og skammaði börnin sín,‘‘ söng Doktor Gunni. Hrafnhildur greip andann á lofti, beygði sig fram og hnippti í bróður sinn í framsætinu.
„Og löggan kom á hjóli,‘‘ heyrðist í útvarpinu og Orri söng hástöfum með. „Ég heiti Siggi stóri, og ég kann sko að freta.‘‘
Arnar leit aftur fyrir sig á systur sína og glennti upp augun. Hún gapti svo Arnar sá allar tennurnar hennar og niður í kok í þokkabót. Orri söng og hló til skiptis. Hann kunni textann í laginu greinilega utan að.
„Og krakkarnir prumpa svooona,‘‘ söng Orri hátt og gerði svo prumpuhljóð í kjölfarið.
Arnar sneri sér aftur fram og þau Hrafnhildur störðu bæði út um framrúðuna. Hrafnhildur íhugaði að skamma Orra en fékk sig ekki til þess. Hún var ennþá að ákveða hvort henni fyndist þetta hræðilega fyndið eða bara hræðilegt.
Þegar Arnar vaknaði til lífsins sagði hann Krissa að snúa við og keyra þau aftur heim.
Krissi var örlítið hissa en kippti sér ekki mikið upp.
„Ég fékk allavega að taka ykkur á rúntinn og sýna ykkur hæfileikana mína sem dræver,‘‘ sagði hann og gaf svo hressilega í að þau þeyttust öll aftur í sætunum sínum.
Arnar og Hrafnhildur þögðu alla leiðina til baka en Orri hélt áfram að syngja með lögunum sem hann hafði fengið að velja. Arnar velti fyrir sér hvernig hann hafði látið plata sig í þessa vitleysu og taldi í huganum upp allt það sem hann hefði getað varið kvöldinu í. Hrafnhildur hugsaði með sér að engin æfing, hvorki í handboltanum né fótboltanum, yrði nokkurn tímann jafn skemmtileg og þetta.
Krissi staðnæmdist fyrir utan húsið þeirra og systkinin þökkuðu fyrir bíltúrinn. Þegar þau sáu að bíll foreldra þeirra var ekki fyrir utan drifu þau sig inn til að koma öllu í eðlilegar skorður í tæka tíð.
Hrafnhildur hjálpaði Orra úr úlpunni, hljóp með hann upp í herbergið hans og dreif hann í háttinn. Á meðan kveikti Arnar á öllum ljósum og sjónvarpinu svo það liti út fyrir að þau hefðu verið heima allt kvöldið.
Á sama tíma og Arnar heyrði Hrafnhildi loka hurðinni inn til Orra, komu foreldrar þeirra inn um útidyrahurðina.
„Hæ esskan,‘‘ sagði mamma við Arnar en leit svo niður á hendurnar á honum.
„Af hverju ertu í vettlingum?‘‘ spurði pabbi hans sem hafði greinilega tekið eftir þessu líka.
Arnari hafði tekist að sparka af sér skónum og fleygja af sér úlpunni en gleymt að taka af sér vettlingana í öllum hamaganginum.
„Ööö, það er bara af því ég var að taka plokkfiskinn úr ofninum áðan og var að passa mig að brenna mig ekki,‘‘ sagði Arnar, nokkuð sáttur við þessa afsökun. „Svo gleymdi ég bara að taka þá af.‘‘
Arnar tók vettlingana af sér og fattaði þá að það var í raun ekki hann sem þurfti að þylja upp afsakanir.
„Hvar voru þið eiginlega?‘‘ spurði hann foreldra sína á meðan þau klæddu sig úr kápum og skóm. „Og af hverju svöruðuð þið ekki símanum?‘‘
„Við vorum að heimsækja ömmu þína og töfðumst þvílíkt!‘‘ sagði mamma og virtist þreytt eftir heimsóknina. „Það kom í ljós að það var enginn búinn að heimsækja hana í dágóðan tíma svo hún þurfti hjálp við ýmsa hluti.‘‘
„Ekki nóg með það þá var Bogga systir hennar í heimsókn líka,‘‘ sagði pabbi og hljómaði líka þreytulegur. „Hún náttúrulega hjálpar ekki til við nokkurn skapaðan hlut EN hún segir sögur af öllu og öllum. Og hún ætlaði sko heldur betur að veita okkur mömmu þinni félagsskap á meðan við löguðum sjónvarpið í stofunni, vaskinn inn á baði og dýnuna í rúminu.‘‘
Arnar skildi vel að þau væru þreytt miðað við lýsingarnar á framkvæmdunum heima hjá ömmu og sögusögnum Boggu frænku.
„Hún Bogga svoleiðis sagði okkur sögur allan tímann, nánast án þess að draga andann eða fá sér vatnssopa,‘‘ sagði mamma og Arnar átti ekki erfitt með að trúa því, hann hafði sko hitt Boggu nokkrum sinnum og alltaf átt erfitt með að losna undan samræðunum.
„Í fyrsta skipti sem þið hringduð var hún að segja sögu úr brúðkaupi sínu og ég kunni ekki við að fara til að taka símtal,‘‘ hélt mamma áfram að útskýra. „Í annað skipti var hún að segja okkur frá yngri bróður þeirra ömmu sem lést ungur, í þriðja skiptið var hún að segja okkur sögur af þeim ömmu þegar þær voru yngri og í fjórða skiptið var hún að segja rosalegar sögur úr blokkinni sinni. Það var ekki hægt að labba bara í burtu.‘‘
„En þú pabbi, af hverju svaraðir þú ekki þegar við hringdum?“ spurði Arnar sem var enn að reyna að skilja þessa ringulreið.
„Ég var með slökkt á símanum,‘‘ sagði pabbi skömmustulegur.
„En gast þú ekki skroppið frá í smá stund og látið pabba hlusta á Boggu á meðan?‘‘ spurði Arnar mömmu sína.
„Það var nefnilega málið, pabbi þinn var alltaf að brasa með ömmu þinni í öðrum herbergjum hússins svo ég var bara ein með Boggu. Annars hefði ég auðvitað svarað,‘‘ sagði mamma og geispaði. „Svo hættuð þið að hringja svo ég var nokkuð viss um að þið hefðuð bara verið að hringja til að spyrja út í stillingar á ofninum eða náttföt fyrir Orra. Þetta reddaðist allt er það ekki?‘‘
Arnar reyndi að gefa ekki of mikið í skyn með svipbrigðum en innra með sér var hann að springa. Þetta reddaðist er það ekki?! Uuu jújú, eftir að við keyrðum í Vesturbæinn á bíl sem var að detta í sundur og leituðum að ímynduðum glæpamanni sem var svo bara persóna í Prumpulaginu, hugsaði Arnar með sér en náði að kreista fram þvingað brosi.
„Ha jújú, auðvitað reddaðist þetta,‘‘ sagði Arnar því hann kærði sig í raun ekkert um að deila ferðalagi kvöldsins með foreldrum sínum.
„Gott að heyra,‘‘ sagði mamma og pabbi tók undir.
Á meðan þessar samræður áttu sér stað í anddyrinu, var Hrafnhildur enn að svæfa Orra á efri hæðinni.
„Nú verðurðu að loka augunum og reyna að sofna,‘‘ sagði Hrafnhildur sem skildi ekki hvernig þessi litli líkaminn var ekki uppgefinn eftir þennan annasama dag.
„Geturðu sungið Prumpulagið fyrir mig?‘‘ spurði Orri og hjúfraði sig nær Hrafnhildi.
Hrafnhildur var ekki mikill aðdáandi lagsins eftir öll ósköpin en hún gat ekki neitað krúttlega, litla bróður sínum með skæru, bláu augun.
„Í Vesturbænum býr skrýtinn karl …,‘‘ raulaði Hrafnhildur ofurlágt og reyndi að að halda inni hlátrinum þegar hún hugsaði um hversu miklu fjaðrafoki þetta saklausa barn og hans uppáhalds lag olli. Hún ætlaði ekki að svekkja sig á því að þurfa reglulega að sækja Orra á leikskólann. Hún gat ekki beðið eftir fleiri ævintýrum.
You must be logged in to post a comment.