Vorvindar IBBY á Íslandi 2023

Í dag veitti IBBY á Íslandi sínar árlegu viðurkenningar fyrir framlög til barnamenningar, Vorvinda, við athöfn í Gunnarshúsi. Vorvindum er ætlað að vekja athygli á einstaklingum, hópum, verkum og starfsemi sem hleypa ferskum og endurnærandi vindum inn í íslenska barnamenningu.

Að þessu sinni voru Vorvindahafarnir fjórir. Kristín Björg Sigurvinsdóttir, rithöfundur, Vignir Ljósálfur bókasafnfræðingur í Laugarnesskóla, Svakalega sögusmiðja Evu Rúnar Þorgeirsdóttur og Blævar Guðmundsdóttur og Elías Rúni, myndhöfundur.

Elías Rúni, myndhöfundur

Eina af viðurkenningum IBBY fyrir framlag til barnamenningar á Íslandi hlýtur að þessu sinni myndhöfundurinn Elías Rúni, en hann hefur komið af miklum krafti inn í heim myndlýsinga á síðustu árum og með viðurkenningunni vill IBBY á Íslandi hvetja hann til enn frekari dáða á því sviði. Elías Rúni er myndasöguhöfundur, myndlýsir og grafískur hönnuður með BA í grafískri hönnun frá Listaháskóla Íslands og diplómur í myndasögum frá Angoulême í Frakklandi og teikningu frá Myndlistaskólanum í Reykjavík, en Elías Rúni starfar sem grafískur hönnuður á auglýsingastofu og sjálfstætt starfandi teiknari.

Myndasögur Elíasar Rúna hafa birst víða um heim, meðal annars í The Nib í Bandaríkjunum, hinu ítalska Internazionale og Charente Libre í Frakklandi en meðal viðfangsefna myndasagna Elíasar Rúna eru pólitík, loftslagsmál, að koma út úr skápnum, kynjatvíhyggja og margt fleira. Elías Rúni hefur gefið út tvær myndasögur; Plöntuna á ganginum þar sem meðhöfundur er Elín Edda og heimildamyndasöguna KVár sem fjallar um að vera kynsegin, en myndasagan kom upphaflega út sem lokaverkefni í LHÍ en var endurútgefin af Unu úgáfu á síðasta ári en væntanlegar eru útgáfur á ensku, frönsku og þýsku. Kvár er stórmerkilegt og mikilvægt rit og á engan sinn líkan á Íslandi og jafnvel þótt víðar væri leitað.

Á síðustu árum hafa myndlýsingar Elíasar Rúna orðið áberandi í íslenski bókaflóru og má þar nefna léttlestrarflokkinn Vísindalæsi ásamt Sævari Helga Bragasyni, Frankensleiki ásamt Eiríki Erni Norðdal, Ævintýri frá Kóreu og Japan með Unni Bjarnadóttur og svo myndlýsingar fyrir ýmsar auglýsingarherferðir, m.a. herferðir Amnesty á Íslandi og Jafnréttisstofu. Elías Rúni hefur með verið viðurkenndur fyrir myndlýsingar sínar og meðal annars tilnefndur til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar, Fjöruverðlaunanna og Hinna íslensku bókmennaverðlauna.

Myndir Elíasar eru faglega unnar, þær eru grafískar og einfaldar en á sama tíma líka flóknar og fullar af smáatriðum. Þær innihalda fallega litapallettu, oft fáa og hreina liti. Þær eru auðlæsilegar og aðlaðandi og fullar af húmor. Það er ekki létt verk skal ég segja ykkur að túlka loftslagsvá og vísindi á jafn myndrænan og spennandi hátt fyrir allan aldur líkt og Elías Rúna tekst svo listilega vel upp. Sem og frásagnir um mennréttinda-, jafnréttismál og kynjatvíhyggju. Elías Rúni myndlýsir af mikilli virðingu en jafnframt með hlýjum húmor og það er dýrmætt að hafa jafn öflugan myndhöfund og Elías í heimildamyndlýsingum.

Það er ljóst á þessari stuttu yfirferð að Elías Rúni er á fullri ferð og hefur komið með ferskan, nýjan andblæ í flóru myndlýsinga á Íslandi og er því sannarlega verðugur handhafi Vorvinda IBBY. Við viljum hvetja þig enn frekar dáða og hlökkum til að sjá fleiri verk eftir þig í orði og myndum.

Kristín Björg Sigurvinsdóttir, rithöfundur

Það eru fáir rithöfundar sem geta stært sig af því að hafa skrifað fyrir unglinga sem unglingur og svo fengið bókina útgefna. Margir hafa þó reynt að skrifa bækur á unglingsaldri, en þær rata ekki endilega til útgefanda og enda sem skúffuhandrit. Þessir höfundar ættu mögulega að taka Kristínu Björgu sér til fyrirmyndar.

Kristín Björg Sigurvinsdóttir skrifaði sína fyrstu bók á unglingsaldri. En þrátt fyrir mikinn áhuga og eldhug fékk hún ekki bókina útgefna þá. Bókin lá í skúffu í fjöldamörg ár, eða eins og vill vera í dag í möppu á tölvuskjá sem var sjaldan hróflað við. Kristín Björg lagði stund á lögfræði og var starfandi lögfræðingur þegar hún dró upp handritið á ný. Gamall draumur lifnaði við og hún hætti að stunda lögfræði og lagði alla krafta sína í söguna um Dulstafi.

Grunnhugmyndin að fyrstu bók Kristínar Bjargar, Dóttir hafsins sem kom út árið 2020, kemur upp úr þessu handriti sem Kristín Björg skrifaði fyrir öllum þessum árum síðan. Bókin er draumabók allra unglinga sem elska og þrá ævintýri og fantasíur með smá rómans í bland við spennu og magnaðan ævintýraheim. En hún er ekki síður áminning til allra að gefa ekki draumana upp á bátinn. Það sem þú skrifar á unglingsárum á vel erindi til nútímans og unglingar geta vel skrifað bækur.

Önnur bók Kristínar Bjargar, Bronsharpan, kom svo út fyrir jólin 2022 og gaf þeirri fyrri ekkert eftir. Kristín Björg skrifar af öryggi og virðingu fyrir lesendum sínum. Í texta hennar skín í gegn ástríða fyrir viðfangsefninu og bækurnar eru hugmyndaríkar og vel uppbyggðar. Útgáfa unglingabóka þarf að vera ríkuleg og fjölbreytt og bækur Kristínar Bjargar auðga íslenska barna- og unglingabókaflóru svo um munar.

Kristín Björg hefur hlotið fjölda tilnefninga fyrir bækur sínar. Er það skemmst að nefna nýlega tilnefningu til Fjöruverðlaunanna fyrir Bronshörpuna og tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barna- og ungmennabóka fyrir Dóttur hafsins.

Það er fagnaðarefni þegar nýr barna- og unglingabókahöfundur stígur fram af eins miklu öryggi og Kristín Björg hefur gert. Bækur hennar heilla lesendur á öllum aldri. Fyrir framlag hennar til barnamenningar sem IBBY á Íslandi veitir henni Vorvindaviðurkenninguna í ár.

Því miður gat Kristín Björg ekki verið hér í dag til að taka á móti viðurkenningunni, en í hennar stað tekur Svanhildur, móðir hennar, við viðurkenningunni.

Vignir Ljósálfur, bókasafnfræðingur í Laugarnesskóla

BBY á Íslandi veitir Vigni Ljósálfi viðurkenningu fyrir framlag til barnamenningar með metnaðarfullu starfi sínu sem bókasafnskennari á skólabókasafni Laugarnesskóla.

Vignir tók fyrst að sér umsjón með skólabókasafni á Stokkseyri árið 1980 þar sem hann starfaði í 3 ár, en frá árinu 2004 hefur hann haldið utan um skólasafnið í Laugarnesskóla samhliða myndmenntakennslu. 

Á starfsferli sínum hefur Vignir átt frumkvæðið að fjölmörgum listasmiðjum, og ritunar- og lestrarhvetjandi verkefnum byggðum á áhuga og getu nemenda sinna. Meðal annars má nefna fjölmarga bókaklúbba s.s. Drekaklúbbinn, Rithöfundaklúbbinn, Strumpaklúbbinn, Ráðgátuklúbbinn og bókaklúbb Harry Potters. Upphaf alls þessa var listasmiðja um drekafræði og útskrift fyrsta Drekameistarans árið 2011. Í framhaldinu komu fleiri lestrarhvetjandi verkefni, umbunarkerfi, þátttökugögn og viðurkenningarskjöl sem í dag er dýrmætur gagnabrunnur fyrir öll skólastig. Lestrarverkefnin eru ýmist einföld eða flóknari í framkvæmd, aðgengileg, vel ígrunduð og með skýr markmið: Að efla læsi og lestraráhuga barna.

Vignir hefur fært veröld barnabókanna inn á skólasafnið á fjölbreyttan hátt, og með því aukið áhuga, upplifun og forvitni nemenda sinna. Hann hefur eytt mörgum stundum í gerð risavaxinna pappírslíkana af frægum kastölum, sjóræningjaskipum og drekum, og keypt fatnað og muni á ferðum sínum tengda sagnaheimunum fyrir fróðleiksfús börn að máta og handfjatla. Á skjám í nemendarýmum Laugarnesskóla birtast reglulega bókmenntatengdar spurningar þar sem börn geta spreytt sig, skilað inn svörum og unnið til verðlauna. Með alúð og brennandi áhuga hefur Vignir smitað út frá sér og gert skólasafnið að hjarta síns vinnustaðar.

Þá hefur myndmenntakennarinn Vignir samþætt læsi og listir með bókagerð og sagnaritun. Nemendur hafa unnið bækur frá grunni, teiknað myndir og samið sögur. Um leið hefur Vignir lagt áherslu á kennslu fagorða tengdum bókum og bókagerðinni sjálfri, eflt þannig orðaforða nemenda sinna og stuðlað að verndun íslenskrar tungu.

Mannvinurinn Vignir er óþrjótandi uppspretta lestrartækifæra, gleði og fagmennsku. Hlýja og væntumþykja einkennir samskipti hans við nemendur enda er hann vinsæll meðal þeirra, foreldra og samstarfsfólks í Laugarnesskóla. Vignir er jafnframt virtur meðal fagfólks á skólabókasöfnum, sem leitar reglulega til hans eftir innblæstri og áhugaverðum viðfangsefnum.

Vignir á auðvelt með að koma hugmyndum sínum á framfæri, týnast sjálfur í heimi barnæskunnar og smita aðra með sér. Hann er allt í senn; frumkvöðull, handverksmaður, kattavinur, ofurföndrari og Harry Potter áhugamaður nr. 1 á Íslandi, en síðast en ekki síst er Vignir besti vinur lestrarstrumpsins sem leynist í börnum á öllum aldri. 

IBBY á Íslandi þakkar Vigni Ljósálfi fyrir framlag sitt til barnamenningar með því að skapa lestrarhvetjandi umhverfi, þar sem ungum lesendum er kleift að dreyma með opin augun. Vonandi er þessi viðurkenning honum hvatning til áframhaldandi starfa í þágu barna og barnamenningar.

Svakalega sögusmiðjan

IBBY á Íslandi veitir verkefninu Svakalega sögusmiðjan viðurkenningu fyrir framlag sitt til barnamenningar á Íslandi.

Það er alltaf gleðilegt þegar stórhuga verkefni á sviði barnamenningar líta dagsins ljós. Rit- og teiknismiðjan Svakalega sögusmiðjan er gott dæmi um slíkt. Verkefnið er hugarfóstur rithöfundarins Evu Rúnar Þorgeirsdóttur og teiknarans Blævar Guðmundsdóttur. Námskeiðið Svakalega sögusmiðjan er hugsuð sem vettvangur fyrir börn til að læra ritlist og myndlýsingu yfir lengri tíma ásamt því að hlúa að sjálfstrausti þeirra og gefa þeim pláss og tíma til þess að setja fram hugarefni sín og láta rödd sína heyrast.

Saman hafa Eva Rún og Blær skapað skemmtilegu sögurnar um Stúf frá 2019 en samstarf þeirra á sviði kennslu í sagnagerð hófst veturinn 2022 þegar þær héldu smiðjur í tengslum við Sögur – verðlaunahátíð barnanna og á Barnamenningarhátíð Norðurlands-vestra, Skúnaskralli. Upp úr því kviknaði hugmyndin um að bjóða upp á veturlangt námskeið þar sem þær sáu að börnin vildu fá að halda áfram en ekkert slíkt námskeið hefur verið í boði.

Þær stöllur byrjuðu því með námskeiðið Svakalega sögusmiðjan í Borgarbókasafninu í Grófinni og Spönginni sem hefur staðið yfir í allan vetur. Á þeim tíma hafa börnin sem sótt hafa námskeiðin þroskast sem rithöfundar, teiknarar og einstaklingar. Þau sem í upphafi voru feimin og inn í sig hafa náð að stíga fram og kynnt verkin sín með stolti á bókasafninu, sum hafa sent inn sögur í samkeppnir með góðum árangri öll blómstra þau í sköpun sinni.

Með því að helga sig kennslunni á sviði smásagnagerðar með þessum hætti og byggja upp þekkingu, reynslu og visku hafa þær saman náð að byggja upp fjölbreyttar og skemmtilegar kennsluaðferðir sem ná til barnanna. Það skiptir nefnilega máli að gefa sér rými til að fara á dýptina og breiddina í kennslunni svo að nemendur fái tækifæri til að þroska sig sem höfunda, eins ólíkir og þeir eru, sem nálgast skáldskapinn á ólíkan hátt.

Þá hafa þær nýtt áfram þekkingu sína og boðið einnig upp á styttri námskeið samhliða kennslunni í vetur m.a. þegar þær buðu upp á vel heppnaða hrikalega hrekkjavökusmiðju í Bókasafni Mosfellsbæjar í haust.

Með Svakalegu sögusmiðjunni hafa þær Eva Rún og Blær náð að skapa ríkulegan og frjóan jarðveg fyrir upprennandi höfunda og erum við í IBBY þeim þakklát fyrir þeirra mikilvæga framlag til barnamenningar.


Það er von IBBY að viðurkenningarnar verði vindur í segl Vorvindahafa og frekari hvatning til dáða.