Dagur barnabókarinnar – Eins og í sögu

Fimmtudaginn 29. mars hyggst IBBY á Íslandi færa þjóðinni smásögu að gjöf til að fagna degi barnabókarinnar. Sagan Eins og í sögu eftir Ragnheiði Gestsdóttur verður lesin upphátt fyrir alla grunnskólanema á landinu í einu, klukkan 9:45. Sögunni verður útvarpað á Rás I á þeirri sömu stundu í flutningi höfundar.

Eins og í sögu fjallar um það hvernig galdur skáldskaparins getur reynst hin styrkasta stoð þegar tekist er á við ógnir hversdagsins. Aðalpersóna sögunnar er lögð í einelti í skólanum en finnur óvænta hjálp í hillum skólabókasafnsins.

Tilgangurinn er að fagna degi barnabókarinnar með notalegri sögustund og vekja um leið athygli á sameiningarmætti skáldskaparins. Með því að flytja söguna fyrir mörg þúsund lesendur í einu er mögulegt að skapa bókmenntaumræðu sem nær til samfélagsins alls.

Þetta er í annað sinn sem IBBY á Íslandi fagnar degi barnabókarinnar með þessum hætti, en í fyrra var sagan Hörpuslag eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur lesin bæði í skólum og á Rás 1.