Vorhefti Barna og menningar kemur út í vikunni. Blaðið er í þetta sinn helgað nostalgíu og yndislestri. Helga Birgisdóttir fjallar um lestur barna, skólabókasöfn og nauðsyn þess að stutt sé við yndislestur strax í æsku. Jónína Leósdóttir og Salka Guðmundsdóttir fjalla um lestur barnæskunnar og gamla vini eins og Bláskjá, Heiðu, Óla Alexander fílibommbommbomm og alla sem búa í Erilborg.
Í blaðinu er einnig viðtal Helgu Ferdinandsdóttur ritstjóra blaðsins við Oddnýju Sturludóttur borgarfulltrúa og formann skóla- og frístundaráðs um Biophiliu-verkefnið, Barnamenningarhátíðina og allt það helsta sem er á döfinni í barnastarfi Reykjavíkurborgar. Af öðru efni í blaðinu má nefna grein Sigríðar Láru Sigurjónsdóttur og Helgu Birgisdóttur þar sem fjallað er um útgáfusögu Önnu í Grænuhlíð á Íslandi.
Þá er að vanda fjallað um nýútkomnar bækur í blaðinu og má þar nefna grein Guðrúnar Láru Pétursdóttur um Með heiminn í vasanum eftir Margréti Örnólfsdóttur sem hreppti Fjöruverðlaunin í flokki barna- og unglingabóka nú í febrúar. Einnig leikrýnir Sigurður H. Pálsson sýningarnar „Litla skrímslið og stóraskrímslið í leikhúsinu“ sem sýnd er í Kúlu Þjóðleikhússins og “Skrímslið litla systir mín“ sem leikhúsið Tíu fingur sýndi í vetur.
You must be logged in to post a comment.