Frú Vigdís Finnbogadóttir afhenti Þórarni Eldjárn í dag bókmenntaverðlaun IBBY á Íslandi, Sögustein.
Verðlaunin eru 500.000 krónur, auk verðlaunagrips til eignar, en þau eru veitt rithöfundi, myndlistarmanni eða þýðanda sem með höfundarverki sínu hefur auðgað íslenskar barnabókmenntir.
Var það einróma álit valnefndar, sem skipuð var Brynju Baldursdóttur, íslenskufræðingi og kennara, Dagnýju Kristjánsdóttur, prófessor og Ragnheiði Gestsdóttur, rithöfundi og myndlistarmanni, að Þórarinn Eldjárn skyldi hljóta verðlaunin í ár.
Ferill Þórarins sem barnabókahöfundar spannar nú rúm tuttugu ár. Hann hefur skrifað ljóð og sögur fyrir börn, endurort bæði Völuspá og Hávamál svo yngsta kynslóðin skilji og þýtt sígildar barnabókmenntir á borð við Greppikló, Lísu í Undralandi og Moldvörpuna sem vildi vita hver skeit á hausinn á henni. En það eru fyrst og fremst kvæðin hans sem eru orðin hluti af menningararfinum sem allar kynslóðir njóta saman, Óðfluga, Halastjarna, Heimskringla, Gælur fælur og þvælur, Grannmeti og átvextir og svo miklu fleiri. Í greinargerð valnefndar segir meðal annars:
Þórarinn Eldjárn er mikill meistari bullljóðaformsins. Hann leikur sér gjarna að tungumálinu, einkum klisjum þess og föstum orðatiltækjum en það örvar málþroska og ímyndunarafl ungra lesenda.
Enginn verðskuldar betur nafnbótina Listaskáld barnanna en Þórarinn Eldjárn og það er okkur mikill heiður og gleði að veita honum Sögusteininn fyrir árið 2013.
You must be logged in to post a comment.