Sögustund á landsvísu

Fimmtudaginn 4. apríl næstkomandi  býður IBBY á Íslandi til stærstu sögustundar á landinu, þriðja árið í röð. Tilefnið er alþjóðadagur barnabókarinnar sem er 2. apríl ár hvert. Félagið hefur í ár fengið Friðrik Erlingsson til þess að semja smásögu ætlaða nemendum á öllum stigum grunnskólans, 6-16 ára.

Friðrik Erlingsson40.000 grunnskólanemar munu hlusta á frumflutning sögunnar Stóra bróður samtímis, óháð því hvar þeir eru staddir á landinu eða hvaða kennslustund þeir sitja. Kennarar geta ýmist lesið söguna fyrir nemendur, fengið einhvern úr hópnum til að lesa hana fyrir hina eða valið að hlusta á söguna í útsendingu Rásar I, þar sem Bergur Þór Ingólfsson mun lesa hana. Taki skólarnir höndum saman verður til einstæð upplifun tugþúsunda á sömu stundu.

Sögustundin verður fimmtudaginn 4. apríl, svo að skólastarf verði örugglega hafið af fullum krafti eftir páskaleyfið. Sagan verður flutt innan þáttarins „Okkar á milli,“ en Friðrik Erlingsson verður gestur Hönnu G. Sigurðardóttur í þættinum. Lesturinn hefst kl. 9:10 og ætti að taka tæpar 20 mínútur. Upplesturinn verður svo aðgengilegur á vef RÚV að flutningi loknum.

Sagan verður send skólastjórum og starfsfólki skólasafnanna í tölvupósti á degi barnabókarinnar, 2. apríl,  og þaðan á sagan að komast í hendur kennara. Þannig hefur starfsfólk skólanna hafi tveggja daga tóm til þess að kynna sér Stóra bróður áður en að upplestrinum kemur. Sögunni fylgja tillögur að umræðuspurningum sem kennarar geta nýtt sér eftir því sem hentar.

Sagan Stóri bróðir er ögrandi, spennandi og einlæg saga, skrifuð af þeirri næmni og listfengi sem lesendur Friðriks þekkja úr verkum hans, allt frá því að Benjamín dúfa kom út árið 1992. Friðrik talar ekki niður til lesenda sinna, hann fæst við raunveruleg vandamál, rétt eins og börn geta þurft að fást við í lífinu sjálfu. Sagan virkar á nokkrum sviðum, 7 ára hlustandi mun ekki ná öllum þeim blæbrigðum sögunnar sem 15 ára lesandi nemur.

Kveikja Friðriks að Stóra bróður var þessi frétt, sem sýnd var í kvöldfréttatíma sjónvarpsins í haust: http://www.ruv.is/frett/morg-born-ein-sins-lids

Sagan minnkar heiminn og stækkar hann í senn, hún færir veruleika stríðshrjáðra barna nær hlustendum, og gerir þá um leið meðvitaðari um ólíkar aðstæður á ólíkum hlutum jarðarkringlunnar. Þetta er mannbætandi saga og vonandi hlusta sem flestir á hana, innan grunnskólans sem utan.

Nánari upplýsingar veitir Arndís Þórarinsdóttir, formaður IBBY, í síma 897-2772 og í gegnum netfangið islandsdeildibby@gmail.com.