Framtíðarbókin í Gerðubergi

Laugardaginn 9. mars kl. 10.30 – 13.30  er hin árlega barna- og unglingabókaráðstefna í Gerðubergi. Umræðuefnið er Framtíðarbókin og rætt verður um það hvernig hvernig bækur og lestur þróast í samtíma okkar og framtíð. Aðgangur er ókeypis.

Dagskráin er eftirfarandi:

Sögur í þátíð, nútíð og framtíð.
Katrín Jakobsdóttir – Bókmenntafræðingur, mennta- og menningarmálaráðherra.

Áhugi á bókum og innihaldi þeirra kemur ýmist til skyndilega eða þróast á löngum tíma. Það er mikilvægt að vera í kringum fólk sem sýnir bókum virðingu og kann að umgangast þær. Þetta á við um barnabækur jafnt sem ódauðlegar heimsbókmenntir og sumir geta hreinlega ekki án bóka verið.

Katrín Jakobsdóttir (f. 1976) lauk meistaraprófi í íslenskum bókmenntum árið 2004. Katrín hefur setið á alþingi frá árinu 2007, þar af sem Mennta- og menningarmálaráðherra frá 2009.

Lesbretti í skólastarfi
Bára Elíasdóttir og Rannveig Möller – Grunnskólakennarar við Vogaskóla.

Fjallað er um tilraunaverkefni Skólavefsins og tveggja kennara í Vogaskóla um notkun lesbretta í íslenskukennslu í 9. og 10.bekk.  Kostir og gallar tækisins eru ræddir og hvernig verkefnið hefur gengið.

Bára Elíasdóttir (f. 1965) er grunnskólakennari og hefur kennt við Vogaskóla síðan 1990.
Rannveig Möller (f. 1962) er grunnskólakennari og hefur kennt við Vogaskóla frá árinu 1997.

Er fantasían form framtíðarinnar?
Kjartan Yngvi Björnsson – Bókmenntafræðingur og meistaranemi í ritlist við Háskóla Íslands.

Leitast er við að svara þeirri spurningu hvort fantasían sé form framtíðarinnar? Hvað er það sem kallar á hið fantasíska hjá bæði lesendum og höfundum? Hvers vegna eru fantasíur skrifaðar? Hvers vegna eru þær lesnar og hvaða tilgangi þjónar formið?

Kjartan Yngvi Björnsson (f. 1984) er bókmenntafræðingur og mastersnemi í ritlist við Háskóla Íslands. Hann hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin 2012 ásamt Snæbirni Brynjarssyni fyrir bókina Hrafnsauga.

Án tillits
Kristín Eva Þórhallsdóttir – Umsjónarmaður Leynifélagsins á Rás 1 og Geymslunnar á RÚV.

Eftir að í ljós kom að sonur Kristínar Evu er lesblindur opnuðust augu hennar fyrir því að ekkert okkar sér heiminn í sama ljósi. Þetta vakti hjá henni spurningar um eðli og inntak lesturs. Í erindi sínu segir Kristín Eva frá hvernig bókaormur leiðir lesblint barn um í heimi dansandi bókstafa, sem oftar en ekki virðast óvinveittir og frá aðferðum sem hvetja til lesturs.

Kristín Eva Þórhallsdóttir (f. 1972)  er annar umsjónarmaður útvarpsþáttarins Leynifélagið á Rás 1 og Geymslunnar á RÚV, hvorutveggja þættir ætlaðir börnum. Áður starfaði hún á ritstjórn Fréttablaðsins sem blaðamaður og ritstjóri sérblaða auk þess að vera um tíma einn af leiðarahöfundum blaðsins. Hún er með próf í heimspeki og bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og meistarpróf í tilraunakenndri hreyfimyndagerð frá kvikmyndadeild listaháskólans CalArts í Bandaríkjunum. Auk þess hefur hún verið búsett í Frakklandi og Færeyjum. Nú er hún hinsvegar búsett í Reykjavík ásamt eiginmanni og tveimur börnum.

Fundarstjóri er Arndís Þórarinsdóttir, bókmenntafræðingur og formaður IBBY á Íslandi.

Ráðstefnan er haldin í samvinnu við IBBY á Íslandi, Borgarbókasafn Reykjavíkur, Rithöfundasamband Íslands – Síung, Skólasafnamiðstöð Reykjavíkur, Félag fagfólks á skólasöfnum og Upplýsingu – Félag bókasafns- og upplýsingafræða.

gerduberg2013