Börn og menning

Vorhefti 2013

Vorhefti 2013

Vorhefti Barna og menningar er nú komið út en norski rithöfundurinn Thorbjørn Egner er meginþema blaðsins en hann hefði orðið 100 ára á síðasta ári. Dagný Kristjánsdóttir fjallar um Egner og afkvæmi hans í greininni Thorbjørn Egner og þýðendur hans. Helga Birgisdóttir rekur tilurð og sögu Karíusar og Baktusar en Sigurður H. Pálsson sá uppfærslu Þjóðleikhússins á leikritinu um þá Karíus og Baktus og segir af henni.

Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir hendir sér yfir stöðu furðusögunnar á Íslandi og skoðar sérstaklega barnabækur í því samhengi. Hún kannar upprunan og hvernig furðusagan hefur þróast hér á landi. Ármann Jakobsson fjallar í blaðinu um formgerð frásagna í greininni Fræði og frásögn. Greimas, Propp og ævintýrið og Magnea J. Matthíasdóttir veltir fyrir sér upplýsingaveitum barna og kosti þess að láta sér leiðast.

Í Börnum og menningu er svo að venju að finna margs háttar umfjöllun um barnabókmenntir að auki er viðtal við Önnu Pellowsky sagnaþul og IBBY konu en ritstjóri blaðsins tók við hana viðtal á dögunum þegar hún hélt námskeið í Gunnarshúsi á vegum IBBY á Íslandi.

Ritstjóri Barna og menningar er Helga Ferdinandsdóttir.

Tímaritið Börn og menning er gefið út af IBBY-samtökunum á Íslandi tvisvar á ári. Hægt er að gerast félagi í samtökunum og jafnframt áskrifandi að blaðinu á http://www.ibby.is eða með því að senda póst á bornogmenning@gmail.com.