Áslaug Jónsdóttir og Kristín Helga Gunnarsdóttir tilnefndar til Astrid Lindgren-verðlaunanna

Kristín Helga Gunnarsdóttir og Áslaug Jónsdóttir

Kristín Helga Gunnarsdóttir og Áslaug Jónsdóttir

IBBY á Íslandi, Upplýsing og Rithöfundasamband Íslands hafa tekið sig saman um að tilnefna Áslaugu Jónsdóttur og Kristínu Helgu Gunnarsdóttur til Bókmenntaverðlauna Astridar Lindgren 2015. Verðlaunin voru stofnuð í minningu Astridar Lindgren árið 2002 og árlega eru tilnefndir fjölmargir höfundar frá öllum heimshornum.

Kristín Helga og Áslaug hafa báðar sent frá sér fjölda bóka og hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín. Þær eru ólíkir höfundar en nálgast báðar viðfangsefni sín af virðingu og vandvirkni. Í verkum þeirra beggja er fjöri og einlægni fléttað saman á listilegan hátt, en Astrid Lindgren hafði einmitt næma tilfinningu fyrir þeirri blöndu. 

Verðlaunin nema 5 milljónum sænskra króna, en það eru hæstu barnabókmenntaverðlaun sem veitt eru í heiminum. Tilkynnt verður um sigurvegarann næsta vor.