Fjórða árið í röð býður IBBY á Íslandi til stærstu sögustundar á landinu til þess að fagna alþjóðadegi barnabókarinnar sem er 2. apríl. Við höfum í ár fengið listaskáldið Þórarin Eldjárn til þess að semja smásögu ætlaða nemendum á öllum stigum grunnskólans, en Þórarinn fékk í fyrra Sögusteinsverðlaun IBBY á Íslandi.
Hugmyndin er sú að allir 40.000 grunnskólanemar landsins hlusti á frumflutning sögunnar samtímis, óháð því hvar þeir eru staddir á landinu eða hvaða kennslustund þeir sitja meðan á flutningi stendur. Kennarar geta ýmist lesið söguna fyrir nemendur, fengið einhvern úr hópnum til að lesa hana fyrir hina eða valið að hlusta á söguna í útsendingu Rásar I. Taki skólarnir höndum saman verður til einstæð upplifun tugþúsunda á sömu stundu.
Sögustundin í ár verður miðvikudaginn 2. apríl, á alþjóðlegum degi barnabókarinnar, klukkan 9:10. Saga Þórarins tekur rúmar fimmtán mínútur í flutningi. Henni verður útvarpað á Rás I, og að flutningi loknum mun Sigurlaug M. Jónasdóttir ræða við höfundinn.
Sagan verður send til skólanna í tölvupósti fyrir mánaðamót svo að starfsfólk skólanna hafi tóm til þess að kynna sér hana áður en að upplestrinum kemur. Henni fylgja, eins og undanfarin ár, tillögur að umræðuspurningum sem kennarar geta nýtt sér eftir því sem hentar.
Vanti frekari upplýsingar bendum við á netfang samtakanna, islandsdeildibby@gmail.com
You must be logged in to post a comment.