Vorvindar 2014

Þorgrímur Þráinsson, Eva Einarsdóttir, Linda Ólafsdóttir, Jóna Valborg Árnadóttir og Elsa Nielsen. Á myndina vantar Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur.  Mynd: Áslaug Jónsdóttir

Þorgrímur Þráinsson, Eva Einarsdóttir, Linda Ólafsdóttir, Jóna Valborg Árnadóttir og Elsa Nielsen. Á myndina vantar Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur.
Ljósmynd: Áslaug Jónsdóttir

Í dag voru í Gunnarshúsi afhentar Vorvindaviðurkenningar IBBY á Íslandi.  Fjórar viðurkenningar voru veittar að þessu sinni fyrir störf að barnamenningu.

Viðurkenningarnar hlutu:

•    Elsa Nielsen og Jóna Valborg Árnadóttir. Brosbókin er fyrsta bók höfunda og fjallar um hversdagslegt vandamál sem varðar þó okkur öll – að fara í fýlu. Samstarf texta- og myndhöfundar er sérstaklega frjótt og í sögunni felst lausn vandans, því bókin bægir öllum fýlum á brott.
•    Eva Einarsdóttir og Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir. Bók Evu og Lóu Hlínar, Saga um nótt er hugljúf saga með ævintýralegum myndum þar sem myrkrið hættir að vekja ótta og nóttin breytist fyrir augum lesenda í undraveröld.
•    Linda Ólafsdóttir. Myndir Lindu prýða margar bækur sem eru gefnar út beggja vegna Atlantshafsins. Myndir hennar eru unnar af fagmennsku og þekkingu á listforminu, einfaldar og flóknar í senn.
•    Þorgrímur Þráinsson. Í haust verða liðin 25 ár frá því að fyrsta bók Þorgríms Þráinssonar kom út og hefur hann alla tíð átt tryggan lesendahóp. Samhliða ritstörfunum hefur Þorgrímur unnið ötullega að lestrarhvatningu á ýmsan hátt.

Vorvindaviðurkenningar IBBY hafa verið afhentar árlega frá árinu 1987 og eiga þær að vekja athygli á þeim fersku vindum sem blása í barnamenningunni hverju sinni.