Úrvalsbókin Nesti og nýir skór gefin öllum börnum í 1. bekk

bok_og_bangsiDagur læsis, 8. september, er útgáfudagur bókarinnar Nesti og nýir skór sem Ibby á Íslandi gefur út í samvinnu við Mál og menningu.

Á næstu dögum mun öllum nemendum landsins sem sitja í 1. bekk berast bréf þar sem þeim er boðið að koma á almenningsbókasafnið sitt að sækja eintakið sitt af bókinni. Bókin geymir sögur, myndir og ljóð frá fyrri tímum – sögur sem foreldrar, kennarar, ömmur og afar þekkja og munu njóta þess að kynna fyrir börnum sínum.

Á þeim fáu stöðum þar sem ekki er bókasafn í námunda við skóla verður bókum komið beint til skólanna.

Tilgangur gjafarinnar er að kynna yngstu kynslóðina fyrir barnamenningararfinum í von um að hann verði þeim gott veganesti á lestrarferðalagi lífsins. Bókin vex með börnunum – textarnir eru bæði mislangir og misþungir. Sumar sögurnar mun einhver lesa fyrir þau, en aðrar munu þau með tíð og tíma geta lesið sjálf. Með því að beina börnunum og fjölskyldum þeirra á bókasöfnin að sækja gjöfina vonumst við til þess að kynna nýjar fjölskyldur fyrir bókasöfnunum. Bókin er því lestrarhvetjandi verkefni í mjög víðum skilningi.

IBBY á Íslandi á fjölmarga samstarfsaðila að þessu verkefni. Lions á Íslandi styrkti verkefnið myndarlega og aðstoðaði okkur við dreifinguna, Barnavinafélagið Sumargjöf lagði drjúgt lóð á vogarskálarnar, styrktarsjóður Norvik lagði okkur lið og Miðstöð íslenskra bókmennta styrkti útgáfuna sömuleiðis. Borgarbókasafn Reykjavíkur hefur líka veitt okkur ýmsa aðstoð, sem og almenningsbókasöfn og grunnskólar um land allt sem leika lykilhlutverk við dreifinguna. Síðast en ekki síst stöndum við í þakkarskuld við alla mynd- og textahöfundana sem heimiluðu okkur að birta sögurnar í bókinni.

Bókin hefur verið lengi í vinnslu og fjölmargir komið að efnisvali hennar og útfærslu. Margrét Laxness sá um allt útlit bókarinnar og hefur með mjög smekklegum hætti búið efni á ólíkum aldri fallegan heildarsvip. Það er okkur mikil gleði að þessi gamli draumur okkar hafi ræst með svo myndarlegum hætti.

Ritstjórar eru Sólveig Ebba Ólafsdóttir og Þorbjörg Karlsdóttir fyrir hönd IBBY og Sigþrúður Gunnarsdóttir fyrir hönd Forlagsins.

Bókin er gefin út í tveimur litum – bláa eintakið verður gefið en þeir sem vilja eignast Nesti og nýja skó þó þeir séu ekki nemendur í sex ára bekk geta keypt alveg eins bók með rauðri kápu í bókaverslunum.