Ráðstefna um barna- og unglingabókmenntir í Gerðubergi 3. mars 2018

Mynd frá Borgarbókasafnið.

Hin árlega ráðstefna um barna- og unglingabókmenntir verður nú haldin í 21. sinn í Borgarbókasafninu í Gerðubergi laugardaginn 3. mars kl. 10.30. Yfirskrift hennar að þessu sinni er, Í hvaða bók á ég heima og verður sjónum einkum beint að því hvort raunveruleiki barnabóka sé annar en raunverulegur raunveruleiki? Birtingarmyndir kynja og kynhlutverka verða skoðaðar og hvort barnabækur séu í takt við tímann eða hvort þar megi enn finna staðnaðar staðalmyndir.

Ráðstefnan er opin öllu áhugafólki um íslenskar barna- og unglingabókmenntir. Í lok ráðstefnunnar verður svo tilkynnt hvaða bækur eru tilnefndar til barnabókmenntaverðlauna Reykjavíkurborgar.

DAGSKRÁ:

Eliza Reid, forsetafrú, ávarpar ráðstefnugesti og opnar ráðstefnuna.

Árni Matthíasson blaðamaður: Doddi í rasistalandi – Það sem Enid Blyton kenndi mér. Árni rifjar upp heiminn sem birtist í barnabókum æsku hans og veltir því fyrir sér hvort og þá hvernig heimsmynd bókanna mótaði afstöðu hans til lífsins.

Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastýra jafnréttismála hjá SFS: Háværir strákar og sætar stelpur. Hvaða áhrif hefur dægurmenning á sjálfsmynd og samskipti kynjanna? Er fjölbreytileikinn að verða sýnilegri eða eru staðalmyndir enn ráðandi víða í bókmenntum barna- og unglinga í dag?

*******HÁDEGISHLÉ*****

Ásta Rún Valgerðardóttir, sálfræðingur. Mamma, pabbi börn og bíll! Hvaða fjölskylduform birtast börnum í bókum? Endurspegla þau almennt samfélagið eða væri mögulega hægt að komast nær þeim raunveruleika sem börn og unglingar þekkja í dag?

Erlingur Sigvaldason, nemi: Barna- og unglingabækur frá sjónarhorni hinsegin unglinga.

Fundarstjóri: Atli Fannar Bjarkason, fjölmiðlamaður.

Að ráðstefnunni standa eftirfarandi félög: Síung, Félag fagfólks á skólasöfnum, IBBY, SFS – skólasafnaþjónustan, Upplýsing – félag bókasafns- og upplýsingafræðinga og Borgarbókasafnið.