Sögusteinn IBBY 2018

Forseti Íslands afhendir Guðrúnu Helgadóttur sögusteininn.

Heiðursverðlaun Íslandsdeildar IBBY, Sögusteinninn, voru afhent í tengslum við uppskeruhátíðina Sögur sunnudaginn 22. apríl, 2018. Verðlaunin sækja nafn í gamla þjóðsögu um töfrastein sem gat sagt þeim endalausar sögur sem var svo heppinn að finna hann. Þau eru veitt á nokkurra ára fresti til þeirra sem hafa með höfundarverki sínu lagt hvað mest af mörkum til að auðga og efla íslenska barnamenningu. Í þetta sinn féllu þau í skaut hinum ástsæla barnabókahöfundi Guðrúnu Helgadóttur. Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Guðrúnu heiðursverðlaunin. Við það tækifæri þakkaði hann Guðrúnu fyrir allar bækurnar sem hún hefur gefið þjóðinni og lét þessi sönnu orð falla: ,,þú ert okkar Astrid Lindgren og Tove Jansson.“

Guðrún Helgadóttir er öllum landsmönnum löngu kunn fyrir verk sín, en fyrsta bókin um Jón Odd og Jón Bjarna kom út árið 1974. Síðan hefur hún sent frá sér fjölda bóka og annarra verka sem glatt hafa hjörtu bæði barna og fullorðinna. Í verkum sínum sýnir Guðrún oft spaugilegar hliðar á tilveru okkar, en hún talar aldrei niður til lesendanna og hún ber traust til skynsemi þeirra og réttlætiskenndar. Verk Guðrúnar auka víðsýni og þroska jafnframt því að kæta og gleðja þá sem þeirra njóta.

Guðrún Helgadóttir fæddist í Hafnarfirði 7. september 1935 og ólst þar upp. Hún gegndi ýmsum mikilvægum embættum á starfsævinni og var til dæmis fyrst kvenna, líklegast í heiminum, til að verða forseti þjóðþings. Hvernig hún fór að því að skrifa allar þessar dásamlegu bækur auk alls annars sem hún hefur tekið sér fyrir hendur er hulin ráðgáta!

Auk verðlauna að upphæð 500.000 krónur fær verðlaunahafinn lítinn grip, sögustein, sem að þessu sinni fannst á bernskuslóðum Guðrúnar, í fjörunni í Hafnarfirði. Íslandsdeild IBBY-samtakanna þakkar Guðrúnu fyrir alla skemmtunina og vonar að þessi steinn hvísli að henni ennþá fleiri sögum.

guðrún helga