Fimmtudaginn 2. apríl 2020 verður smásagan Haugurinn eftir Gunnar Theodór Eggertsson frumflutt í tilefni af degi barnabókarinnar. IBBY á Íslandi hefur síðastliðin tíu ár fagnað deginum með því að færa grunnskólabörnum á Íslandi smásögu að gjöf.
Sagan verður flutt á Rás 1 svo að öll þjóðin getur lagt við hlustir. Gunnar Theodór verður gestur Sigurlaugar M. Jónasdóttur í þættinum Segðu mér fimmtudaginn 2. apríl og sagan verður jafnframt flutt í þættinum sem hefst kl. 9.05. Sagan verður aðgengileg á vef RÚV eftir frumflutninginn.
Gunnar Theodór skrifaði söguna; „Haugurinn“ fyrir börn á aldrinum 6-16 ára. Gunnar hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin 2008 fyrir fyrstu barnabók sína, Steindýrin, og var tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2015 fyrir Drauga-Dísu. Komið hafa út framhaldsbækur af báðum þessum sögum.
Kennsluefni tengt sögunni er aðgengilegt hér: 123skoli.is endurgjaldslaust.
Hugsjón alþjóðlegu IBBY samtakanna er sú að barnabókmenntir geti stuðlað að auknu umburðarlyndi. Fólk sem les sömu söguna á upp frá lestrinum eitthvað sameiginlegt. Með því að leyfa öllum grunnskólanemum landsins að hlusta samtímis á söguna stíga fjörutíu þúsund nemendur inn í sama heim á sama tíma. Það væri okkur IBBY dýrmætt að fá fregnir af því hvernig verkefnið tókst í skólunum , myndir, frásagnir eða ábendingar.
Góða skemmtun!
You must be logged in to post a comment.