Tímaritið Börn & menning komið út

Hausthefti Barna og menningar er komið út og til áskrifenda sinna. Blaðið er að stórum hluta helgað teiknimyndasögum að þessu sinni. Í gegnum fjölbreyttar greinar liggja sameiginlegir þræðir, um hvernig teiknimyndasögur hafa í gegnum árin verið samtímaspegill, um átök hetja og illmenna, ofurkrafta og breyskleika manna og goða. Myndmál teiknimyndasagnanna er alþjóðlegt og þær njóta vinsælda meðal lesenda á öllum aldri.

Meðal greinahöfunda eru Árni Matthíasson, Þórey Mjallhvít Ómarsdóttir, Stefán Pálsson, Gísli Marteinn Baldursson og Helga Birgisdóttir. Jafnframt er að finna í blaðinu umfjöllun Maríu Bjarkardóttur um bókaflokkinn Bekkurinn minn eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur sem og umfjöllun Guðrúnar Láru Pétursdóttur um bókina Vampírur, vesen og annað tilfallandi eftir Rut Guðnadóttur.

Forsíðumyndina gerði Oddur Eysteinn Friðriksson eða Odee. Hann vinnur mest með svokallaða digital fusion eða visual mashup-list sem hann kallar samrunalist.

Börn og menning, er eina íslenska tímaritið sem eingöngu fjallar um barnabókmenntir og annað menningartengt efni fyrir börn. Blaðið kemur út tvisvar á ári og ritstjóri er Ingibjörg Valsdóttir. Hægt er að gerast félagi í IBBY-samtökunum (International Board on Books for Young People) og jafnframt áskrifandi að Börnum og menningu með því að senda póst á bornogmenninggmail.com.