Vorvindar 2020


Vorvindar IBBY á Íslandi eru viðurkenningar fyrir framlag til barnamenningar á Íslandi. Eins og nafnið gefur til kynna eru verðlaunin veitt að vori enda vísar nafnið í þann ferska vorvind sem verðlaunahafar blása inn í barnamenningu á Íslandi. Árið 2020 er óvenjulegt sökum þess að heimsfaraldur hefur geysað frá upphafi árs. Verðlaunaafhendingu var því frestað sökum hans en þegar vetrarvindar voru farnir að geysa í nóvember, án þess að heimsfaraldurinn væri í rénum, var útséð um að hægt yrði að halda hefðbundna verðlaunahátíð. Stjórn IBBY ákvað því að veita verðlaunin bara á tröpppum heimila verðlaunahafa og náði að koma þeim öllum þremur á óvart.

Vorvindahafar IBBY árið 2020 eru:

Bjarni Fritzson

IBBY á Íslandi veitir Bjarna Fritzsyni viðurkenningu fyrir framlag til barnamenningar með barnabókunum um Orra óstöðvandi.

Bjarni kom með nokkrum hvelli inn á íslenskan bókamarkað árið 2018 með fyrstu bókinni sinni um Orra óstöðvandi. Önnur bókin, Orri óstöðvandi og hefnd glæponanna, vakti álíka lukku ári síðar. Í ár kom svo út sú þriðja, Orri óstöðvandi –Bókin hennar Möggu Messi, og er hún jafn líkleg til að heilla unga lesendur. Bækurnar eru ekki eingöngu meðal söluhæstu barnabóka síðustu ára heldur er áhugi á þeim mikill meðal barna. Orri óstöðvandi og það sem hann stendur fyrir er eftirsótt lesefni á skólabókasöfnum og staldra bækurnar ekki lengi við í hillunum. Og það er kannski engin furða. Bækurnar um Orra eru spennandi, fyndnar en samt með sterkan boðskap. Bjarni heldur reglulega sjálfstyrkingarnámskeið fyrir stráka, þar sem hann meðal annars hvetur þá til að fara út fyrir kassann, hvetur börn til að leggja hart að sér, hafa trú á sjálfum sér og gefast aldrei upp. Þessi boðskapur er kjarninn í bókunum um Orra óstöðvandi og vini hans. Þótt bækurnar samanstandi af fyndnum og spennandi sögum úr lífi Orra og vina hans, sigrum og ósigrum, þá stendur Orri stundum frammi fyrir áskorunum sem hann þarf að sigrast á með jákvæðni, ákveðni og hugrekki. Hann þarf að setja sér hæfileg markmið. Allt er þetta boðskapur sem er mjög þarfur í dag. En það er líka lestraráhuginn sem bækurnar hafa skapað. IBBY á Íslandi þakkar Bjarna fyrir áhugann og eljusemina sem hann hefur sett í bækurnar um Orra óstöðvandi og uppbyggingu sjálfstrausts hjá ungum drengjum. Vonandi er þessi viðurkenning hvatning til áframhaldandi bókaskrifa.

Hildur Knútsdóttir

IBBY á Íslandi veitir Hildi Knútsdóttur viðurkenningu fyrir framlag til barnamenningar á Íslandi.

Hildur Knútsdóttir hefur skrifað margar bækur fyrir börn og unglinga en teygir sig jafnframt með skrifum sínum upp í ungmennabókmenntir. Í bókum sínum hefur Hildur komið víða við, hún hefur fjallað um framandi heima, furður og framtíðarmarkaðar aðstæður. Meðal bóka Hildar er tvíleikurinn Vetrarfrí og Vetrarhörkur sem náði ákaflega miklum vinsældum meðal barna og unglinga. Hildur hefur jafnframt skrifað tvær vinsælar bækur um unglingsstrákinn Dodda í samvinnu við Þórdísi Gísladóttur og þriðja bók þeirra stallna er nýkomin út, Hingað og ekki lengra. Meðal nýjustu bóka Hildar er þríleikurinn Ljónið, Nornin og Skógurinn sem hefur að geyma ævintýralega og spennandi sögu sem spannar yfir nokkrar kynslóðir. Hildur hefur hlotið ýmis verðlaun, til dæmis Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Vetrarhörkur árið 2017 og Fjöruverðlaunin fyrir Vetrarfrí árið 2016. Jafnframt hlaut Hildur Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar fyrir bókina Ljónið árið 2019. Á Íslandi koma einungis út örfáar bækur árlega eftir íslenska höfunda sem ætlaðar eru eldri börnum og unglingum. Bækur Hildar hafa því haft afgerandi jákvæð áhrif á barna- og unglingabókaflóruna á Íslandi. Ekki síst fyrir það að vera einmitt bækur sem börn og unglingar hafa áhuga á að lesa. „Þessar bækur eru ógeðslega skemmtilegar og eru sko raunverulega fyrir unglinga!“ var dómur sem 14 ára unglingsstúlka lét falla eftir að hafa lokið við að lesa nokkrar bækur eftir Hildi en hún hafði fram að því verið fremur áhugalaus um lestur. Þetta er nefnilega kjarninn í bókum Hildar. Hún setur sig áreynslulaust í spor og hugarheim barna og unglinga. Um leið er söguþráðurinn oftar en ekki ævintýralegur og aðstæður framandi og spennuþrungnar. Bækurnar eru tímalausar en samt innlegg í samtímann. Textinn er einstaklega lipur og á auðlesinni íslensku samtímis því sem hann býður upp á vandað og ríkt mál sem auðgar orðaforðann. Hildur er líka lunkin við að koma að málefnum sem eru ofarlega á baugi í umræðunni og heimsmálunum án þess að það sé sett fram í predikunartón. En síðast en ekki síst eru bækurnar hennar spennandi og vandaðar – bækur sem kveikja lestraráhuga barna og unglinga. Vorvindaviðurkenning þessi er þakklætisvottur frá IBBY fyrir ómetanlegt framlag Hildar til barnamenningar á Íslandi. Við vonum sannarlega að börn, unglingar, ungmenni og fullorðnir fái áfram að njóta fleiri nýrra og spennandi bóka sem spretta úr sagnasmiðju Hildar.

Rósa Björg Jónsdóttir

IBBY á Íslandi veitir Rósu Björgu Jónsdóttur viðurkenningu fyrir framlag til barnamenningar með brautryðjendastarfi sínu, bókasafni Móðurmáls.

Rósa Björg hefur unnið ómetanlegt starf í þágu barna og unglinga á Íslandi sem eiga annað móðurmál en íslensku með yfirumsjón og skráningu barna-og unglingabóka og annarra gagna á erlendum málum í sjálfboðaliðastarfi. Rósa hóf skráningu gagna fyrir rétt tæpum fjórum árum og í dag eru skráð rúmlega 6.000 gögn í bókasafn Móðurmáls á 88 tungumálum. Rósa hefur ekki einungis séð um skráningu heldur haft yfirumsjón og sótt um styrki fyrir starfinu, útvegað safnkostinn, séð um útlán og lengst af hýsti hún safnið sjálf á eigin heimili.Með sjálfboðaliðastarfi sínu fyrir bókasafn Móðurmáls hefur Rósa gert íslenskt samfélag sterkara, fallegra og betra. Tungumálið er nauðsynlegur hlekkur í þekkingaröflun, mannrækt, sjálfsþekkingu og þátttöku í samfélaginu. Með því að veita börnum og unglingum aðgengi að bókum á sínu móðurmáli fá þau tækifæri að rækta og efla tungumálið sitt og þá hlýju tilfinningu þegar við finnum okkur heima í heimi bókanna. Við í IBBY höfum fylgst með aðdáun með ómetanlegu starfi Rósu við að veita sem flestum börnum aðgengi að barnabókum og þannig byggja brýr milli menningarheima. Kunnum við henni hjartans bestu þakkir fyrir það og vonum að Vorvindaviðurkenning þessi verði hvatning í því þakkláta og og dýrmæta starfi.