Lestrarhvetjandi veggspjald 2021

Þriðja árið í röð tóku IBBY á Íslandi og Reykjavík bókmenntaborg UNESCO höndum saman og létu útbúa lestrarhvetjandi veggspjald fyrir alla grunnskóla landins. Að þessu sinni var listamaðurinn Birgitta Sif fengin til að teikna veggspjaldið sem er ákaflega fallegt.

Myndaniðurstaða fyrir "birgitta sif"

IBBY á Íslandi efndi í fyrsta sinn til samkeppni um lestrarhvetjandi texta á veggspjaldið. Verðlaunatextinn kom frá nemendum í 4. og 5. bekk í Grunnskóla Fjallabyggðar á Siglufirði. Þau höfðu lagt höfuðin í bleyti og sendu inn margar tillögur að texta á veggspjaldið. „Lestur gefur lífinu lit“ var sá texti sem veitti Birgittu Sif innblástur fyrir veggspjaldið.

Verðlaunahafarnir fengu að launum 25 þúsund krónur og efndu til snúðaveislu í tilefni afhendingar verðlaunanna og útgáfu veggspjaldsins.

Veggspjaldið hefur verið sent til allra grunnskóla landsins þar sem það prýðir veggi skólasafnanna ásamt veggspjöldunum frá árunum 2019 og 2020.