Smásagan Svartholið í tilefni af degi barnabókarinnar 2021

IBBY á Íslandi heldur upp á dag barnabókarinnar með því að færa öllum grunnskólanemum landsins smásögu að gjöf. Í ár hefur Kristín Ragna Gunnarsdóttir skrifað skemmtilega smásögu fyrir þetta tilefni, Svartholið. 

Sagan verður flutt á Rás1 í þættinum Segðu mér sem hefst kl. 9.05, fimmtudaginn 8. apríl. Sagan verður aðgengileg á vef RÚV strax að lestri loknum.

Kristín Ragna lærði grafíska hönnun við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og er með BA-próf í almennri bókmenntafræði og ritlist og MA-próf í ritlist frá Háskóla Íslands. Kristín Ragna hefur skrifað tíu bækur fyrir börn og er meðhöfundur þriggja bóka. Auk þess hefur hún myndlýst ótal bækur og hannað bókatengda myndrefla (njalurefill.is), frímerki og sýningar.

Námsgagnaveitan 123skoli hefur útbúið fjölbreyttan verkefnapakka fyrir söguna sem hentar ólíkum aldurshópum. Hægt er að sækja verkefnið hér: Verkefni fyrir Svartholið.

Hugsjón IBBY samtakanna er sú að barnabókmenntir geti stuðlað að auknu umburðarlyndi. Þeir sem lesa eða hlusta á sömu söguna eiga upp frá lestrinum eitthvað sameiginlegt. Með því að leyfa öllum grunnskólanemum landsins að hlusta samtímis á söguna stíga fjörutíu þúsund nemendur inn í sama heim á sama tíma.

Við vonumst til að sem flestir geti nýtt sér og hafi gaman og gagn að.

Með bestu kveðju,

IBBY á Íslandi

Hér er hægt að hlusta á söguna