
Í dag var birtur listi yfir þau sem tilnefnd eru til alþjóðlegu Alma-verðlaunanna, bókmenntaverðlauna sem stofnuð voru í minningu Astridar Lindgren og voru fyrst veitt árið 2003. Fulltrúar Íslands eru tveir að þessu sinni: Brian Pilkington er tilnefndur fyrir verk sín sem rit- og myndhöfundur og Gunnar Helgason fyrir verk sín sem rithöfundur.


Alma-verðlaunin eru á forræði Statens kulturråd í Svíþjóð og eru veitt árlega. Verðlaunaféð nemur fimm milljónum sænskra króna, eða 75 milljónum íslenskra króna, sem fallið geta í skaut höfundar, teiknara, sagnaþular eða einstaklings eða samtaka sem hvetja börn til lesturs. Markmið verðlaunanna er að auka veg barnabóka um víða veröld, með þá trú Astridar Lindgren að leiðarljósi að barnabókin stuðli að skilningi milli manna og menningarheima, ýti undir lýðræði og gagnsæi, og styrki stöðu barna. Það er von aðstandenda verðlaunanna að athyglin sem þau njóta leiði til þess að fleiri barnabækur verði þýddar þannig að börn um allan heim hafi aðgang að bókmenntum í hæsta gæðaflokki.
Tólf manna hópur velur verðlaunahafa hvers árs úr hópi tilnefninga sem kallað er eftir frá sérfræðingum um allan heim. Lista yfir allar tilnefningar má finna á heimasíðu verðlaunanna hér. Verðlaunin verða veitt í Stokkhólmi þann 22. mars 2022.
IBBY á Íslandi óskar þeim Brian og Gunnari innilega til hamingju með tilnefningarnar.
You must be logged in to post a comment.