Vorvindar 2021

VORVINDAR 2021 VEITTIR

Sunnudaginn 19. september veitti Íslandsdeild IBBY sínar árlegu viðurkenningar fyrir framlög til barnamenningar, Vorvinda, við athöfn í Borgarbókasafninu Grófinni. Vorvindum er ætlað að vekja athygli á verkum og starfsemi sem hleypir ferskum og endurnærandi vindum inn í íslenska barnamenningu og því sem vel er gert innan barnamenningar.

Að þessu sinni voru Vorvindahafarnir fjórir:

Arndís Þórarinsdóttir, rithöfundur, fékk viðurkenningu fyrir að hafa síðastliðinn áratug sannað sig sem einn okkar fremsti barnabókahöfundur. Hún hefur einnig skipað stóran sess á sviði barnabókmennta með lestarhvatningu ýmiskonar og er öflug talskona barnabókmennta í umræðunni á Íslandi.

Áslaug Jónsdóttir, mynd- og rihöfundur hlaut Vorvinda fyrir framlag hennar til bókmennta fyrir yngstu kynslóðina. Þá sérstaklega fyrir myndversið Sjáðu! þar sem lesendur fylgja börnum um ævintýralega veröld í bundnu máli með fallegum myndlýsingum.

Kristín Ragna Gunnarsdóttir rit- og rithöfundur hlaut viðurkenningu fyrir að miðla goðsögum til barna í gegnum bækur sínar og myndlýsingar sem og með töfrandi og fræðandi barnasýningum.

„7. bekkur mælir með” og Gunnhildur Lilja Sigmundsdóttir. Nemendur og foreldrar í Fossvogsskóla hljóta Vorvinda fyrir bókaklúbb og tímaritsútgáfu. „7. bekkur mælir með”. Þriðja veturinn í röð eru nemendur í 7. bekk í Fossvogsskóla með bókaklúbb og gefa jafnframt út tímarit með bókaumsögnum sínum. Blaðið kemur út mánaðarlega og er dreift til allra í árgangnum.

Íslandsdeild IBBY sendir verðlaunahöfum hjartans hamingjuóskir og hvetur þá alla til frekari dáða.

Nánar um verðlaunahafana:

IBBY veitir Arndísi Þórarinsdóttur viðurkenningu fyrir framlag sitt til barnamenningar á Íslandi.

Arndís hefur síðastliðinn áratug sannað sig sem einn okkar fremsti barnabókahöfundur. Hún hefur einnig skipað stóran sess á sviði barnabókmennta með lestarhvatningu ýmiskonar og öflug talskona barnabókmennta í umræðunni á Íslandi.

Arndís hefur með atorkusemi sinni og hugmyndaauðgi nýtt hvert tækifæri til þess að hvetja börn til að lesa og njóta góðra barnabóka. Hún hefur verið ötul í að hitta börn bæði í skólum og bókasöfnum og spjallað við þau um bækurnar sínar, haldið ritsmiðjur fyrir börn þar sem hún kynnir þeim fyrir frásagnargleðinni og nú síðast í sumar stofnaði hún leshring í bílskúrnum hjá sér fyrir börnin í hverfinu sem vakti mikla lukku.

Með greinarskrifum og í samfélagsumræðunni hefur Arndís hvatt fullorðna til að vera öflugar lestrarfyrirmyndir og hefur kynnt okkur fyrir lestarkósý sem er notaleg stund þar sem hver er með sína bók og teppi, á borðinu er snarl í skálum, kerti og jafnvel arineldur á skjánum og ljúf tónlist. Lesturinn á að vera notalegt tilhlökkunarefni en ekki kvöð.

Þá hefur Arndís látið að sér kveða á nær öllum þeim vettvöngum sem láta sér barnabókmenntir varða. Hún var formaður IBBY um árabil, hún hefur setið í stjórn barnabókakaráðstefnanna í Gerðubergi og Mýrarinnar sem og í stjórn Síung á Íslandi, samtaka íslenskra barna- og unglingahöfunda.

Síðast en ekki síst er Arndís framúrskarandi barnabókahöfundur. Eitt helsta höfundaeinkenni hennar er snilldarleg orðnotkun sem hún glæðir oft húmor og glettni og hæfileiki til þess að byggja upp samkennd með persónum bókanna, hvort sem það er táningsstúlka í tilfinningakreppu eða gömul skrudda.

Arndís kom að krafti inn á svið barnabókmenntanna með fyrstu bókinni sinni, Játningar mjólkurfernuskálds sem kom út 2011 og var tilnefnd til Norrænu barnabókaverðlaunanna 2013. Þá skrifaði hún bækurnar Lyginni líkast, Gleraugun hans Góa, Galdraskólinn og Arfurinn fyrir Námsgagna- og Menntamálastofnun á árunum 2013-2020.

Fyrsta bókin bókin, Nærbuxnaverksmiðjan í þríleik um frökku Ólínu og gætna Gutta á Brókarenda kom út 2018 eftir fylgdu Nærbuxnanjósnararnir 2019, sem var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Nærbuxnavélmennið 2020. Orðaleikir, galsi og húmor einkenna bækurnar og hefur serían sannað að aldrei er hægt að fá nóg af nærbuxum!

Árið 2020 kom einnig út bókin Blokkin á heimsenda sem Arndís skrifaði ásamt Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur. Bókin hlaut Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur við útgáfu og Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka árið 2020. Hún var tilnefnd til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur og er önnur tveggja íslenskra bóka sem er tilnefnd Barna- og ungmennaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Nýjasta bók hennar Bál tímans er einstök að því leyti að sögumaður bókarinnar er sjálf Möðruvallabók sem segir sögu sína frá tilurð sinni til tímans þegar hún flytur í Hús íslenskra fræða. Bókin er grípandi hver hefði trúað að það væri hægt að fylgja eftir Möðruvallarbók af jafn mikilli hluttekningu og gleði, sorg yfir sögunum sem glötuðust, gleði yfir sögunum sem varðveittust. En sterkast skilur nýjasta bók Arndísar eftir sig vonina. Vonina um bjarta framtíð barnabókmenntanna og þau þungu og mikilvægu lóð sem Arndís leggur þar á vogaskálarnar með vönduðum verkum sínum og ötulu starfi í þágu barnamenningar.

Það er IBBY á Íslandi sannur heiður að veita Arndísi Þórarinsdóttur Vorvinda viðurkenningu 2021 fyrir framlag hennar til barnamenningar á Íslandi.

______________________________________________________________________________________________________________________________

IBBY á Íslandi veitir Áslaugu Jónsdóttur viðurkenningu fyrir framlag sitt til barnamenningar á Íslandi.


Myndir og bækur Áslaugar Jónsdóttur eru fyrir löngu orðnar þekktar, jafnt innan sem utan landsteinanna. Frá því að fyrsta bók hennar kom út árið 1990 hefur Áslaug starfað ötullega að barnamenningu sem mynd- og rithöfundur og einnig sem grafískur hönnuður og myndlistamaður. Áslaug hefur skrifað og myndlýst fjölda bóka, samið barnaleikrit og tekið þátt í sýningum erlendis og á Íslandi, en hún er hvað þekktust fyrir myndlýsingar sínar í sögunum Litla skrímsli og Stóra skrímsli, sem hún skrifaði ásamt Kalle Güettler og Rakel Helmsdal. Meðal annarra bóka hennar má nefna Ég vil fisk sem hún skrifaði og myndlýsti og einnig myndlýsingar hennar í Bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason sem löngu eru orðnar sígildar og órjúfanlegur hluti af sögunni um hnöttinn bláa.

Áslaug hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir framlag sitt til barnamenningar, m.a. Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar, Íslensku bókmenntaverðlaunin. Eins hefur hún verið á heiðurslista IBBY, sem og tilnefnd til ALMA og H.C. Andersen verðlaunanna.

Þó Áslaug hafi hlotið ýmsar viðurkenningar fram að þessu og að verk hennar séu orðin sígild í bókahillum heimilanna, þá langaði stjórn IBBY að þessu sinni að veita Áslaugu Vorvindaviðurkenningu fyrir framlag hennar til bókmennta fyrir yngstu kynslóðina.

Það vill svo til að á þeim litla örmarkaði sem Ísland er, koma út mjög fáar íslenskar bækur á hverju ári fyrir okkar allra yngsta fólk og það getur komið niður á fjölbreytileika bókanna. Þó er svo gríðarlega mikilvægt að næra þennan hóp lesenda framtíðarinnar með fjölbreyttu efni af ýmsum toga. Það starfar enginn að barnamenningu nema að viðkomandi hafi brennandi áhuga og ástríðu fyrir því starfi sem oft og tíðum getur virst sem hreint og beint hugsjónastarf. Það fer ekki á milli mála í verkum Áslaugar að hún brennur fyrir bókmenntum yngstu kynslóðarinnar, bæði þeirra sem eru enn ólæs sem og þeirra sem eru farin að vinna sig í gegnum stafina og lesa sjálf. Og þar spila myndirnar lykilhlutverk. Flæði texta og mynda gengur einstaklega vel upp í verkum Áslaugar, en að þessu sinni langar okkur að þakka henni sérstaklega fyrir myndaversið Sjáðu! sem kom út haustið 2020.

Í Sjáðu! fylgja lesendur börnum um ævintýralega veröld í bundnu máli. Frásögnin er leikandi létt og skemmtileg, óvænt, fyndin og spennandi. Myndir og knappur textinn flétta sama sögu sem hrífur lesandann með sér. Sjáðu! hentar vel fyrir margendurtekinn lestur eins og svo oft vill verða með lesendahóp á þessum aldri og sagan dýpkar við hvern lestur. Lesandinn uppgötvar sífellt eitthvað nýtt og getur jafnvel leikið sér sjálfur með því að segja söguna með sínum eigin orðum. Lesturinn örvar málþroska og stækkar heim hins unga lesanda. En ekki síst býður lestur bókarinnar upp á dýrmæta og gefandi samverustund hins unga og hins eldri lesanda.

Það er dýrmætt fyrir okkur að í bókaflóruna bætist við nýjar íslenskar bækur fyrir lesendur framtíðarinnar. Við erum þakklát fyrir verk Áslaugar fyrir okkar yngsta fólk og einnig fyrir okkur sem eldri erum og fáum að njóta verka hennar. Það er því okkur sannur heiður að veita Áslaugu Jónsdóttur Vorvinda viðurkenningu IBBY 2021 fyrir framlag hennar til barnamenningar á Íslandi.

______________________________________________________________________________________________________________________________

BBY á Íslandi veitir Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur viðurkenningu fyrir framlag sitt til barnamenningar á Íslandi.

Kristín Ragna er hæfileikaríkur rithöfundur og myndlistamaður sem hefur síðustu áratugina helgað störf sín barnamenningu og barnabókmenntum. Jafnframt hefur Kristín Ragna sett upp margar töfrandi og fræðandi barnasýningar. Gegnumgangandi þema í verkum hennar eru hinar norrænu goðsagnir.

Norrænu goðsagnirnar sem varðveittust á Íslandi í gegnum árhundruðin eru ekki auðlesnar í sínu upprunalega formi. Tungumál þeirra er flókið fyrir unga lesendur. Það kemur í hlut skálda og myndlistafólks að miðla þessum menningararfi á skiljanlegan hátt til ungra lesenda. Þetta hefur Kristín Ragna svo sannarlega gert á vandaðan hátt sem vekur forvitni og eftirtekt barna. Til dæmis hafa verk hennar fyrir Menntamálastofnun; bækur og myndir fyrir margmiðlunarefni; sýnt börnunum okkar að drekar eru ekki bara til í kínverskum sögum, heldur líka Íslendingasögunum.

Kristín Ragna hefur blásið lífi í Völuspá og Hávamál með myndlýsingum sínum í endursögn Þórarins Eldjárns á þessum fornu kvæðum. Klippimyndirnar eru lifandi og litríkar og grípa auga lesandans. Það er greinilegt hvar Kristín Ragna hefur sett niður penna, því ævinlega fylgir því litadýrð og gleði. Hið dularfulla er þó aldrei fjarri. Í þríleiknum um systkinin Úlf og Eddu sameinar Kristín Ragna listakonuna og rithöfundinn og afraksturinn er hraður, spennandi og vel myndlýstur þríleikur. Þríleikurinn gerist í Ásgarði, þar sem systkinin Úlfur og Edda þurfa að takast á við ólíklegustu goð, sum í nýjum búning. Þríleikurinn verður aðlagaður að leikhúsi á næstu misserum sem er mikið tilhlökkunarefni.

Í nýjum þríleik, Nornasögu, heldur Kristín Ragna áfram að miðla goðsögunum þegar hún sleppir alls kyns óvættum og forynjum lausum í Reykjavík, þar sem hin seinheppna stúlka Katla þarf að kljást við þær.

Það er einstaklega viðeigandi að Kristín Ragna skuli einmitt núna vera á ferðalagi um Eystrasaltslöndin til að miðla norrænum barnabókum með sýningunni sinni, Barnabókaflóðið. Það er ævintýraleg gagnvirk sýning fyrir börn þar sem sjálfur Miðgarðsormurinn leiðir börn í skapandi ferðalag úr einu rými í annað og ljóð og sögur byggja brýr milli áfangastaða.

Við þökkum Kristínu Rögnu fyrir framlag hennar til barnamenningar bæði hérlendis og erlendis og það er sannur heiður að veita henni Vorvinda viðurkenningu 2021.

Marta Hlín Magnadóttir, ritstjóri og útgefandi Kristínar Rögnu, tók við viðurkenningunni fyrir hennar hönd.

______________________________________________________________________________________________________________________________

BBY á Íslandi veitir „7. bekkur mælir með” og Gunnhildi Lilju Sigmundsdóttur viðurkenningu fyrir framlag sitt til barnamenningar á Íslandi.

„Það er töff að lesa“ er slagorð bókaklúbbsins sem nemendur í 7.bekk við Fossvogsskóla stofnuðu árið 2019. Upphaflega hittist hópurinn til spjalla, skiptast á Syrpum og lesa saman. Lestraráhuginn tók svo að þróast og Syrpuklúbburinn varð að bókaklúbbi. Nemendurnir hittast mánaðarlega, spjalla og skiptast á bókum yfir góðum veitingum. Eftir hverja bók sem er lesin er skrifuð stutt umfjöllun og gefin stjörnugjöf.

Foreldrarnir setja inn umsögnina ásamt stjörnugjöfinni á Facebook síðu hópsins ásamt mynd af nemendanum með bókina. Umsögnunum er safnað saman mánaðarlega og engin takmörk né regla um hversu margar eða fáar bækur eru lesnar í hverjum mánuði. Allar bækur og umsagnir teljast með – hvort sem hún er lesin af einum eða fleiri lesendum.

Gunnhildur Lilja Sigmundsdóttir, móðir eins nemanda í klúbbnum, sér um að safna saman umsögnunum og setja upp og fara með í prentun. Til viðbótar leitar Gunnhildur Lilja til lestrarfyrirmynda í samfélaginu, t.d. íþróttafólks, þjálfara, tónlistarfólks og sjónvarpsfólks fyrir útgáfu hvers blaðs og fær þau til að senda krökkunum lestrarhvatingu og bókameðmæli sem birtast líka í blaðinu.

Blaðið góða kemur út í 60 eintökum og er dreift á öll heimili nemenda í árgangnum. Hvert og eitt blað er þvi stútfullt af fjölbreyttum, áhugaverðum og skemmtilegum umsögnum sem kveikir lestraráhuga „áskrifenda“ blaðsins og gerir þau áhugasöm um lestur bókanna sem skólafélagarnir eða fyrirmyndirnar mæla með.

Bókaklúbburinn hefur gengið vonum framar þar sem hann er stofnaður og skipulagður af nemendunum sjálfum, þau lesa þær bækur sem þau velja og hafa áhuga af. Alveg eins og bókaklúbbar gerist bestir. Bekkurinn hefur náð stórkostlegum árangri og er lestrarstig árgangsins vel yfir meðaltali landsins.

Þetta er þriðji veturinn sem blaðið kemur út og heftin eru því orðin á þriðja tug sem er magnaður árangur.

Við hjá IBBY viljum sérstaklega vekja athygli á og verðlauna bókaklúbb 7. bekkjar þar sem hann hvetur til lesturs á skemmtilegan og frumlegan hátt. Við viljum þakka ykkur metnaðarfullu nemendum í 7. bekk. Vel gert og meira svona, þið eruð frábær fyrirmynd fyrir aðra!

Einnig viljum við þakka foreldrum ykkar fyrir að hjálpa ykkur að blómstra, þroskast og kynnast þeim ævintýraheimi sem bækur hafa upp á að bjóða.

Gunnhildur Lilja Sigmundsdóttir hefur haldið utan um þetta frábæra verkefni af ótrúlegri eljusemi og metnaði. Við vonum að drifkraftur hennar og eldmóður verði öðrum foreldrum innblástur og að fleiri sambærilegir bókaklúbbar spretti upp í grunnskólum landsins.

Það er IBBY sannur heiður að veita „7. bekkur mælir með” í Fossvogsskóla og Gunnhildi Lilju Sigmundsdóttur Vorvinda viðurkenningu fyrir framlag þeirra til barnamenningar á Íslandi.