Vorvindaviðurkenningar 2022

VORVINDAR 2022

Í dag veitti IBBY á Íslandi sínar árlegu viðurkenningar fyrir framlög til barnamenningar, Vorvinda, við athöfn í Gunnarshúsi. Vorvindum er ætlað að vekja athygli á einstaklingum, hópum, verkum og starfsemi sem hleypa ferskum og endurnærandi vindum inn í íslenska barnamenningu.

Að þessu sinni voru Vorvindahafarnir fjórir.

📒 Leikhópurinn Miðnætti fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi framlag til barnamenningar. Leikhópurinn Miðnætti hefur bryddað upp á ýmiskonar nýlundu í sviðslist sinni fyrir börn og hefur undanfarin ár staðið fyrir einstaklega metnaðarfullum og áhugaverðum sýningum fyrir ung börn. Þar má nefna upplifunarleikhús fyrir börn frá 3 mánaða aldri og myndrænar sýningar án orða þar sem allir skynja og upplifa á sínum eigin forsendum óháð aldri og uppruna.

📕Margrét Tryggvadóttir rithöfundur, fékk viðurkenningu fyrir öflugt starf sitt sem barnabókarithöfundur og fyrir að vera afar kröftug talskona barnabókmennta. Hún hefur skrifað fjölbreyttar bækur, til dæmis margverðlaunaðar fræðibækur fyrir börn sem hlotið hafa miklar vinsældir. Hún skrifaði einnig spennandi unglingabók, Sterk. Sú bók fól í sér það nýnæmi að ákveðnir hópar í samfélaginu, sem lítið sem ekkert hefur verið skrifað um á íslensku áður, gegndu aðalhlutverki í sögunni. Margrét hefur einnig skipað stóran sess á sviði barnabókmennta með því að vera mjög ötull málsvari barnabókmennta og barnabókaútgáfu.

📗Rán Flygenring myndhöfundur fékk viðurkenningu fyrir ómtetanlegt framlag sitt til barnamenningar á Íslandi. Rán er einn af þeim myndhöfundum Íslands sem hefur stíl sem sérhver landsmaður þekkir strax. Hún hefur myndlýst ótal margar vinsælar barnabækur þar sem hæfileikar hennar sem flinkur myndhöfundur, frábær húmoristi og góður sögumaður fá að njóta sín vel. Smitandi kraftur, leikgleði, lífsgleði, ævintýri og húmor einkenna hennar höfundaverk Ránar.

📘Aðstandendur Skólaslita – lestrarhvetjandi verkefnis, hlutu viðurkenningu fyrir einstakt framlag sitt til barnamenningar. Skólasamfélagið á Reykjanesi ásamt Ævari Þór Benediktssyni og Ara Yates útfærðu þróunarverkefnið, Skólaslit – lestrarhvetjandi verkefni sem er öllum aðgengilegt á vefsíðu verkefnisins. Í október síðastliðnum birtist einn kafli daglega af hryllingssögunni frábæru, Skólaslit, eftir Ævar Þór Benediktsson, sérstaklega samin fyrir þetta verkefni, ásamt vandaðri myndlýsingu Ara Yates. Á Íslandi tóku rúmlega hundrað grunnskólar um allt land þátt og fengu kennarar og nemendur tækifæri til að setja efni tengt sögunni á hugmyndavegg vefsíðunnar.

IBBY sendir Vorvindahöfum hjartans hamingjuóskir og hvetur þau öll til frekari dáða. ❤️

(Sjá nánar texta um hvern og einn viðurkenningarhafa neðar)

Vorvindaviðurkenning IBBY 2022: Margrét Tryggvadóttir

Margréti Tryggvadóttur er sannarlega margt til lista lagt og hefur víða látið að sér kveða í íslensku samfélagi, til að mynda sem verslunar- og galleríeigandi, sem menningarrýnir og sem ritstjóri og stjórnmálamaður, svo að eitthvað sé nefnt. Á síðustu árum hefur rithöfundurinn Margrét Tryggvadóttir þó verið í forgrunni og við njótum glöð ávaxtanna af því.

Þeir sem þekkja Margréti vita að hún brennur fyrir barnabókmenntum og barnamenningu. Hún hefur verið stjórnarkona í RSÍ um árabil og hefur látið til sín taka í stjórn SÍUNG, samtökum barna- og ungmennabókahöfunda. Hún hefur verið ötull málsvari barnabókmennta og barnabókaútgáfu, í pistlaskrifum og samfélagsumræðu, auk þess að rita vandaðar fræðigreinar um barnabókmenntir, kenna barnabókmenntir hér á árum áður við Námsflokka Reykjavíkur og Endurmenntun KHÍ og þýða þær af erlendum málum yfir á íslensku.

Það lá beint við að Margrét nýtti sér náttúrulega ritfærni sína og tæki sjálf að setja saman frumsamdar barnabækur. Árið 2006 kom út sú fyrsta, Sagan af undurfögru prinsessunni og hugrakka prinsinsum hennar, sem var samstarfsverkefni hennar og Halldórs Baldurssonar, teiknarans hugmyndaríka. Viðbrögðin létu ekki á sér standa, tvíeykið hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin, og fylgdi verkinu eftir strax árið 2007 með Drekanum sem varð bálreiður. Bókin Skoðum myndlist sem Margrét ritaði og vann í samstarfi við myndhöfundinn Önnu Cynthiu Leplar, kom einnig út árið 2006 og hlaut sú bók meðal annars Fjöruverðlaunin í fyrsta sinn sem þau voru veitt.

Nokkrum árum síðar leiddu Margrét og Linda Ólafsdóttir, myndhöfundur og barnabókahöfundur, saman hesta sína og fyrsta afurðin af því samstarfi, Íslandsbók barnanna, leit dagsins ljós árið 2016. Á síðasta ári kom svo út annað samstarfsverk þeirra, Reykjavík barnanna. Báðar eru bækurnar sannkölluð listaverk sem sameina frásagnarlist, sagnfræði og fróðleik um land okkar og þjóð og einstakan myndheim Lindu, og hafa höfundarnir tveir hlotið einróma lof fyrir og ýmsar viðurkenningar. Enda þótt bækurnar séu samdar með börn í huga hæfa þær lesendum á öllum aldri, líkt og allar góðar barnabókmenntir ættu að gera.

Margréti Tryggvadóttur er töfrum slungin sýn listamannsins á veröldina jafnan hugleikin og fjallaði með næmum hætti um einn þekktasta listmálara okkar í Kjarval: Málarinn sem fór sínar eigin leiðir árið 2019. Félagshyggjumanneskjan Margrét er svo enn fremur óhrædd við að fjalla um baráttumál sín í barnabókum sínum, svo sem jafnréttismál, og gerði það með eftirminnilegum hætti í ungmennaskáldsögunni Sterk, sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2021. Þar skrifar Margrét meðal annars um málefni transfólks í samtímanum.

Það er IBBY á Íslandi sönn ánægja að veita Margréti Tryggvadóttur Vorvindaviðurkenningu IBBY árið 2022. Um leið nýtum við tækifærið til að þakka henni fyrir öflugt starf í þágu barnamenningar á Íslandi og hvetjum hana til frekari góðra verka á þessu sviði. Við hlökkum til að sjá næstu bækur hennar.

Eiginmaður Margrétar, Jóhann Ágúst Hansen, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Margrétar.

Vorvindaviðurkenning IBBY 2022 – Leikhópurinn Miðnætti

IBBY á Íslandi veitir leikhópnum Miðnætti Vorvinda viðurkenningu fyrir ómetanlegt framlag til barnamenningar.

Leikhópurinn er stofnaður af leikkonunni og leikstjóranum Agnesi Wild, tónlistarkonunni Sigrúnu Harðardóttur og leikmynda- og búningahönnuðinum Evu Björgu Harðardóttur. Frá stofnun árið 2015 hefur hópurinn unnið ötullega í þágu barnamenningar og einbeitt sér að sviðslistum fyrir börn. Meðal leiksýninga sem leikhópurinn hefur staðið að eru leikverkin um álfana Þorra og Þuru, brúðusýningarnar Geim mér ei og Á eigin fótum sem jafnframt hlutu tilnefningar til Grímuverðlaunanna árið 2017 í flokknum „Barnasýning árins“ og „Dans og sviðshreyfingar“ ársins fyrir sýninguna Á eigin fótum.

Árið 2021 var mjög viðburðaríkt leikhópnum og hafa verk þeirra vakið mikla athygli. Þorri og Þura rötuðu á sjónvarpsskjá landsmanna í þáttaseríunum Þorri og Þura – vinur í raun og Þorri og Þura – Týndu jólin. Þorri og Þura stigu líka á stokk í árlegri leiksýningu í Tjarnarbíói.

Í Borgarleikhúsinu hefur leikhópurinn sýnt ungbarnasýninguna Tjaldið, sem hefur vakið verðskuldaða athygli. Sýningin er upplifunarleikhús, þar sem börn frá þriggja mánaða upp í þriggja ára fá að taka þátt í leiksýningunni með tónlistarsköpun og leikmunum. Verkið er sýnt á virkum morgnum og um helgar og gefur þannig foreldrum í fæðingarorlofi tækifæri til að upplifa leikhús með ungum börnum sínum og brjóta upp hversdaginn.

Síðasta sumar fór leikhópurinn svo um landið með sýninguna Allra veðra von í samstarfi við sirkuslistahópinn Hringleik. Það má því með sanni segja að leikhópurinn sé að sækja í sig veðrið.

Það sem einkennir verk leikhópsins er einlægni og gleði í bland við upplifun. Sýningarnar eru vandaðar og unnar af öllu hjarta og það sést í öllu, allt frá ljósum til búninga, frá tónlist til flutnings. Það er löngu tímabært að IBBY á Íslandi veiti þessum metnaðarfulla leikhópi Vorvindaviðurkenningu og þakki þannig fyrir gott starf í þágu barnamenningar.

Vorvindaviðurkenning IBBY 2022: Rán Flygenring

Rán Flygenring er einn af þeim myndhöfundum Íslands sem hefur stíl sem sérhver landsmaður þekkir strax. Hugmyndaríkar og glaðlegar línur, hver mynd svo áreynslulaus, innblásandi, göldrótt. Eins og margir sem náð hafa meistaratökum á list sinni lætur Rán það virka ákaflega einfalt og sjálfsagt að teikna; myndirnar hennar hafa sama smitandi kraftinn og verk meistara á borð við Quintin Blake og Anne Fiske. Leikgleði, lífsgleði, ævintýri og húmor.

Rán hefur verið afkastamikil á ferlinum og stundum gæti maður haldið að hún hefði verið að störfum margfalt lengur en raun ber vitni. Hún lauk BA-gráðu í grafískri hönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2009 og hefur síðan þá, auk þess að flakka vítt og breitt um heiminn, meðal annars teiknað lifandi viðburði, auglýsingar, fréttabréf, myndasögur fyrir bloggsíður og samfélagsmiðla og haldið sýningar og vinnustofur, svo að fátt eitt sé nefnt. Hún er nú sjálfstætt starfandi mynd- og rithöfundur, listakona og hönnuður, búsett í Reykjavík.

Hér langar okkur auðvitað að beina sviðsljósinu að starfi hennar á sviði bókmenntanna. Þar hefur hún hlotið fjöldamörg verðlaun og viðurkenningar; Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar í þrígang, verðlaun Félags íslenskra teiknara sömuleiðis í þrígang, bóksalaverðlaunin, tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Þýsku ungmennabókaverðlaunin. Hún hefur átt í farsælu samstarfi með nokkrum öðrum höfundum; með Finn-Ole Heinrich að bókunum um Brjálínu Hansen; með Hjörleifi Hjartarsyni að Sögunni um Skarphéðni Dungal og hinum stórskemmtilegu Fuglar og Hestar; með Hugleiki Dagssyni að myndasögunni Ógæfa; og nú fyrir síðustu jól myndskreytti hún jólabálk Hallgríms Helgasonar, Koma jól? Sama haust sendi hún einnig frá sér hina bráðskemmtilegu Drottningin sem kunni allt nema … sem hún samdi með Gunnari Helgasyni. Þar er Rán í miklu stuði; hún skreytir teikningarnar með höfundareinkenni sínu, alls kyns litlum bröndurum og talblöðrum, og útkoman er bráðfyndin og fjörug. Vonandi verður framhald á samstarfi þessara höfunda.

Ekki má svo gleyma hinni dásamlegu Vigdís – bókin um fyrsta konuforsetann sem kom út árið 2019 og sló rækilega í gegn. Þar segir Rán sögu Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrum forseta Íslands, á aðgengilegan og gamansaman hátt svo að ungir jafnt sem aldnir hafa gaman af. Það er eitt að vera flinkur teiknari og annað að vera frábær húmoristi og góður sögumaður. Rán hefur allt þetta til brunns að bera.

Núorðið finnst okkur Íslendingum eiginlega að Rán Flygenring hafi alltaf verið þarna með teiknipennann – teikningarnar hennar tilheyra íslenskri menningu rétt eins og sönglögin sem allir kunna, þjóðsögur sem hvert mannsbarn þekkir.

Það er IBBY á Íslandi sönn ánægja að veita Rán Flygenring Vorvindaviðurkenningu IBBY árið 2022, um leið og við þökkum henni fyrir störf hennar í þágu barnamenningar á Íslandi og hlökkum til framhaldsins.

Vorvindaviðurkenning IBBY 2022: Skólaslit – lestrarhvetjandi verkefni.

Í upphafi árs 2021 ákváðu kennsluráðgjafar á Reykjanesinu að setja sig í samband við Ævar Þór Benediktsson rithöfund með þá hugmynd að búa til lestarhvetjandi verkefni fyrir börn þar sem sérstaklega væri hugað að því að kveikja áhuga drengja.

Við undirbúning verkefnisins var unnin mikil undirbúningsvinna, til að mynda voru gerð rýnisamtöl við drengi á miðstigi í öllum grunnskólum í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Vogum og send út spurningarkönnun til drengja á unglingastigi.

Úr varð hugarfóstrið Skólaslit, hryllileg lestarupplifun (þá meina ég æðisleg) allan októbermánuð sem endaði á sjálfri hrekkjavökunni. Á hverjum degi birtist kafli á síðunni skolaslit.is sem bæði var hægt að lesa og hlusta á í upplestri höfundar með mynd eftir teiknarann Ara Yates sem bætti við og dýpkaði enn frekar spennuna og hryllinginn.

Verkefnið var risastórt. Stýrihópurinn sem stóð að verkefninu voru Kolfinna Njálsdóttir deildarstjóri skólaþjónustu á fræðslusviði Reykjanesbæjar, Heiða Ingólfsdóttir kennsluráðgjafi við leik- og grunnskóla í sveitarfélögunum Suðurnesjabæ og Vogum, Anna Hulda Einarsdóttir kennsluráðgjafi á fræðslusviði Reykjanesbæjar, Ævar Þór Benediktsson rithöfundur og leikari og Ari Yates myndhöfundur. Að verkefninu kom enn stærri hópur, starfsfólk frá grunnskólum í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Vogum ásamt kennsluráðgjöfum, starfsfólki frá félagsmiðstöðinni Fjörheimum og Bókasafni Reykjanesbæjar, alls um 35-40 manns. Það þarf heilt þorp til að ala upp barn … og það þarf heilt sveitafélag til að efla læsi barna! Þetta verkefni er til fyrirmyndar og frábært dæmi um hverju hægt er að áorka með sameinuðu átaki.

Árangur þessarar miklu og flottu vinnu var líka risastór og vakti verkefnið athygli á landsvísu og út fyrir landsteinana. Nemendur og kennarar um allt land tóku virkan þátt í verkefninu og auk þátttakendanna frá Íslandi var umferð frá þrjátíu öðrum löndum um síðu verkefnisins. Skólaslit hlaut verðskuldaða fjölmiðlaathygli og dáðumst við, í stjórn IBBY á Íslandi, að þessu stórhuga og vel útfærða lestarhvetjandi verkefni. Skólasamfélagið á Reykjanesinu ásamt Ævari Þór Benediktssyni og Ara Yates á mikið hrós skilið að færa landinu öllu og heiminum verkefnið Skólaslit.

Nú verður spennandi að fylgjast með framhaldinu sem er víst í farvatninu og verður gaman að sjá þetta glæsilega verkefni vaxa og gefa enn meira af sér í framtíðinni.