Lestrarhvetjandi veggspjald 2023

Nú í byrjun árs 2023 tóku IBBY á Íslandi og Reykjavík bókmenntaborg UNESCO höndum saman og létu útbúa lestrarhvetjandi veggspjald fyrir alla grunnskóla landsins.

Listamaður ársins er Anna Cynthia Leplar, sem er vel þekkt í barnabókaheiminum. Teikningar hennar hafa fylgt íslenskum börnum til fjölda ára. Að þessu sinni fékk listamaðurinn sjálfur að velja hvort texti væri á veggspjaldinu eða ekki. Anna Cynthia valdi að nota lestrarhvetjandi textann Lesum saman. Á veggspjaldinu má svo sjá ævintýralegt sambland af dýrum og börnum lesa saman.

Veggspjaldið verður sent til allra grunnskóla landsins þar sem það prýðir veggi skólasafnanna ásamt veggspjöldunum frá árunum áður. Þetta er í fimmta sinn sem IBBY á Íslandi sendir veggspjöld í alla grunnskóla landsins. Verkefnið kom til í kjölfar ákalls frá skólasöfnum grunnskóla á Íslandi eftir lestrarhvetjandi efni á íslensku til að skreyta veggi skólasafna og skóla með og veita þannig grunnskólabörnum innblástur til lesturs. Það er von okkar í IBBY að veggspjaldið kalli fram löngun til lesturs og minni á að lestur er fyrir alla og getur skapað innilegar og ævintýralegar stundir.