IBBY á Íslandi fagnar Degi barnabókarinnar 2023 með smásögunni Fjársjóður ömmu Gógóar eftir Arndísi Þórarinsdóttur. Sagan verður frumflutt samtímis á Rás 1 fyrir alla grunnskólanema landsins í stærstu sögustund ársins fimmtudaginn 13. apríl 2023, kl. 9.05.
Fjársjóður ömmu Gógóar er fyrir börn á aldrinum 6-16 ára og er þetta í þrettánda sinn sem félagið fagnar deginum með þessum hætti. Arndís Þórarinsdóttir er einn af okkar ástsælustu barnabókahöfundum. Barnabækur eftir hana eru meðal annars bókaflokkurinn um Nærbuxnaverksmiðjuna og Blokkin á heimsenda sem hún skrifaði ásamt Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur. Blokkin á heimsenda hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2020 í flokki barna-og ungmennabóka og Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttir. Nýjasta bók hennar er Kollhnís sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2022 í flokki barna- og ungmennabóka, Fjöruverðlaunin 2023 í sama flokki og er tilnefnd til barna- og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs í ár.
Unnur Sólmundardóttir hjá kennarinn.is bjó til ítarlegt og vandað kennsluefni í tengslum við söguna og hægt er að nálgast söguna á textaformi og öll verkefnin á kennarinn.is.
Hugsjón IBBY samtakanna er sú að barnabókmenntir geti stuðlað að auknu umburðarlyndi. Þeir sem lesa eða hlusta á sömu söguna eiga upp frá lestrinum eitthvað sameiginlegt. Með því að leyfa öllum grunnskólanemum landsins að hlusta samtímis á söguna stíga fjörutíu þúsund nemendur inn í sama heim á sama tíma.
Við vonumst til að sem flestir geti nýtt sér og hafi gaman og gagn að.
Með bestu kveðju,
IBBY á Íslandi