Vorvindar glaðir

„Ég skal lofa að vera dugleg,“ sagði einn viðtakandi Vorvindaviðurkenninga IBBY í Gunnarshúsi í dag, rjóður af gleði. Hamingjan og sköpunarkrafturinn voru við völd í sólskininu núna síðdegis þegar fjórar slíkar viðurkenningar voru afhentar og greinilegt að þetta vaska hæfileikafólk tók hvatningunni alvarlega.

Þetta var í þrítugasta sinn sem Vorvindar IBBY blása og viðurkenningarnar hlutu að þessu sinni:

  • Bergrún Íris Sævarsdóttir. Bergrún er afkastamikill listamaður sem virðist eflast með hverju nýju verkefni. Hún vinnur bæði með myndir og texta og bækur hennar ná jafnauðveldlega til yngstu lesendanna og þeirra sem lesa fyrir þá, enda einkenna húmor og hlýja verk hennar öll.
  • Kjartan Yngvi Björnsson og Snæbjörn Brynjarsson. Síðan fyrsta bókin í flokknum Þriggja heima saga kom út hefur sagan vaxið mikið og söguheimurinn þanist út. Kjartan og Snæbjörn eru metnaðarfullir og hugmyndaríkir höfundar, en svo að ungt fólk kjósi að lesa á íslensku skiptir sköpum að til séu bækur eins og Þriggja heima saga á íslensku.
  • Ragnhildur Hólmgeirsdóttir. Fyrsta bók Ragnhildar, Koparborgin, er safarík saga þar sem hver þáttur er úthugsaður. Bókin ber þess merki að höfundur hefur nostrað við hvern þátt hennar, en ríkuleg smáatriðin yfirgnæfa samt aldrei æsispennandi frásögn Ragnhildar sem heldur þétt um alla þræði sögunnar.
  • Study Cake. Frumkvöðlar sprotafyrirtækisins Study Cake hafa það markmið að líta á tæknina sem bandamann bóklestrar, frekar en sem óvin, í keppninni um tíma barna. Samnefnt smáforrit er unnið í samstarfi við fjölda höfunda og sérfræðinga og þróast ört í takt við kröfur notenda, sem er til mikillar fyrirmyndar.

 

swöhler_MG_09122016

Ásta Magnúsdóttir (fyrir hönd Kjartans Yngva Björnssonar og Snæbjörns Brynjarssonar), Bergrún Íris Sævarsdóttir, Ragnhildur Hólmgeirsdóttir og stofnendur Study Cake: Kjartan Þórisson, Hörður Guðmundsson og Kristján Ingi Geirsson. Ljósmyndina tók Sigríður Wöhler.