Tímaritið Börn og menning er komið út

Hausthefti Barna og menningar er komið út og til áskrifenda sinna. Blaðið er í þetta sinn helgað alþjóðlegu barna- og unglingabókmenntahátíðinni Mýrinni sem haldin var á haustdögum í Norræna húsinu. Sérstakir heiðursgestir hátíðarinnar voru þau Sigrún og Þórarinn Eldjárn. Í tímaritinu er meðal annars að finna áhugavert viðtal við þau systkin um feril þeirra og samstarf. Auk þess ritar Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, einn af gestum Mýrarinnar, grein um Mark Twain. Kristín Ragna Gunnarsdóttir fjallar um sýninguna Barnabókaflóðið sem sett var upp í tilefni 50 ára afmælis Norræna hússins og Elín Elísabet Einarsdóttir greinir frá málstofunni sem haldin var á Mýrinni „Að týnast og finnast í myndum: Myndveröld nútímabarna.

Þá er að vanda fjallað um nýútkomnar bækur í blaðinu og má þar nefna grein Kolfinnu Jónatansdóttur um Bókaflokkinn Úlf og Eddu eftir Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur og umfjöllun um Nærbuxnaverksmiðjuna eftir Arndísi Þórarinsdóttur eftir Maríu Bjarkadóttur. Einnig er uppfærsla leikhópsins Lottu á Gosa leikrýnd af Ástu Gísladóttur.

Forsíðumyndina teiknaði Ninna Thorarinsdottir að þessu sinni.

Börn og menning, er eina íslenska tímaritið sem eingöngu fjallar um barnabókmenntir og annað menningartengt efni fyrir börn. Blaðið kemur út tvisvar á ári og ritstjóri er Ingibjörg Valsdóttir. Hægt er að gerast félagi í IBBY-samtökunum (International Board on Books for Young People) og jafnframt áskrifandi að Börnum og menningu með því að senda póst á bornogmenning@gmail.com.