Þriðjudaginn 2. apríl 2019 verður smásaga eftir Gerði Kristnýju Guðjónsdóttur frumflutt í öllum grunnskólum landsins í tilefni af degi barnabókarinnar. IBBY á Íslandi hefur síðastliðin níu ár fagnað deginum með því að færa grunnskólabörnum á Íslandi smásögu að gjöf. Sagan verður flutt á Rás 1 svo að öll þjóðin getur lagt við hlustir. Gerður Kristný verður gestur Sigurlaugar M. Jónasdóttur í þættinum Segðu mér sem hefst kl. 9.00 þriðjudaginn 2. apríl. Upplestur sögunnar hefst um klukkan 9.10.
Gerður Kristný skrifaði söguna Hverfishátíðin fyrir börn á aldrinum 6-16 ára. Hún hefur sent frá sér ljóðabækur, skáldsögur, smásögur, barnabækur, viðtalsbók og ferðasögu og hafa bækur hennar hlotið ýmsar viðurkenningar. Gerður Kristný hlaut Bókaverðlaun barnanna árið 2003 fyrir söguna Marta smarta og vestnorrænu barna- og unglingabókaverðlaunin fyrir barnabókina Garðurinn. Í febrúar 2011 var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu barnaleikritið Ballið á Bessastöðum, sem byggt er á bókum Gerðar Kristnýjar um prinsessuna og forsetann á Bessastöðum.
Kennsluefni tengt sögunni Hverfishátíðin verður aðgengilegt á https://123skoli.is/ endurgjaldslaust.
Hér geta kennarar fundið nánari upplýsingar varðandi söguna og námsefni.