Ritstjóraskipti og skýrsla stjórnar

Ingibjörg Valsdóttir, fráfarandi ritstjóri

Þann 17. maí 2021 var aðalfundur IBBY haldinn í Gunnarshúsi.

Sævar Helgi Bragason víkur úr stjórn en aðrir stjórnarmeðlimir voru endurkjörnir fyrir næsta starfsár. Stjórn IBBY færir Sævari Helga bestu þakkir fyrir hans störf í þágu félagsins. Sverrir Norland tekur sæti í hans stað í stjórn IBBY.

Ný stjórn fyrir starfsárið 2020-2021:

 • Dröfn Vilhjálmsdóttir, formaður
 • Katrín Lilja Jónsdóttir, varaformaður
 • Ingibjörg Ösp Óttarsdóttir, gjaldkeri
 • Linda Ólafsdóttir
 • Guðrún Elísa Ragnarsdóttir
 • Sverrir Norland

Tímaritið Börn og menning kemur út á næstu dögum. Þetta er áttunda tölublaðið, en jafnframt það síðasta, sem Ingibjörg Valsdóttir ritstýrir. Hún hefur stýrt tímaritinu með styrkri hendi og af mikilli fagmennsku síðan árið 2017. Stjórn IBBY færir Ingibjörgu hjartans þakkir fyrir hennar góða og óeigingjarna starf í ritstjórastólnum og fyrir gott samstarf á undanförnum fjórum árum.

Hildur Ýr Ísberg tekur við sem nýr ritstjóri tímaritsins Börn og menning. Hildur Ýr er með MA gráðu í íslenskum bókmenntum. Hennar aðalstarf er íslenskukennsla í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Hildur hefur sinnt dómnefndarstörfum á sviði bókmennta um árabil og skrifað greinar um barnabókmenntir og menningu. Stjórn IBBY býður Hildi Ýri hjartanlega velkomna í hópinn og hlakkar til að starfa með henni á nýju starfsári.

Hildur Ýr Ísberg, nýr ritstjóri

Hér á eftir kemur skýrsla formanns frá aðalfundi fyrir starfsárið 2020-2021.

Komið þið heil og sæl og velkomin á þennan aðalfund á 36. starfsári IBBY á Íslandi.

Nú er þessu óvenjulega starfsári IBBY að ljúka. Líklega er þetta skrítnasta starfsár IBBY á Íslandi til þessa, líkt og hjá flestum í heiminum. Undanfarið ár hefur heimsfaraldur geisað sem hefur sett ákveðið strik í reikninginn fyrir starfsemi IBBY en líka boðið upp á ný tækifæri. Þegar heimsfaraldurinn skall á varð falleg vakning í barnamenningarheiminum hér á landi. Barnabókarithöfundar, leikarar, myndhöfundar og fleiri lögðust á eitt við að búa til afþreyingu fyrir börnin sem voru svo skyndilega svift frelsi sínu til leiks og starfs. Barnabókarithöfundar lásu upp úr bókum sínum á netinu, gáfu ókeypis aðgang að rafbókum sínum, leikarar skemmtu börnunum í beinni útsendingu og bangsar voru settir út í glugga. Þetta var árið sem það kom jafnframt í ljós að hefðbundin starfsemi IBBY, til dæmis útvarpssögulestur og tímaritsútgáfa, rímar kannski ekkert svo illa við sóttkví og heimadvöl.

Haustið 2020 byrjaði ágætlega með nýrri og öflugri stjórn en fljótlega með þriðju bylgju Covid skall á ákveðin fjárhagsleg krísa hjá IBBY. Víðir hefði líklega skilgreint viðbúnaðarstigið sem neyðarstig! En með einurð og dugnaði náði stjórnin að vinna félagið upp úr þessu hættuástandi og segja má að frá því að þriðju Covid bylgjunni lauk hafi þetta góða gengi starfsemi IBBY á Íslandi farið stigvaxandi.

Í nóvember ákvað stjórnin að afhenda Vorvinda-viðurkenningar á óvenjulegan hátt þar sem samkomutakmarkanir leyfðu ekki hefðbundið Vorvinda-hóf það árið. Vorvindahafar voru þeir Bjarni Fritzson rithöfundur, Hildur Knútsdóttir rithöfundur og Rósa Björg Jónsdóttir sem rekur bókasafn Móðurmáls í sjálfboðastarfi. Það var skemmtilegt að færa þeim óvænt, fríska Vorvinda á tröppum heimila þeirra í nóvember. IBBY deildi svo mynd af hverjum og einum Vorvinda-viðurkenningarhafa á vefsíðu og Facebooksíðu IBBY ásamt öllum tilnefningartextanum. Hingað til hefur sá texti aðeins heyrst í afhendingarræðunum í Vorvindahófinu. Þetta er eitt af því sem Covid ýtti okkur út fyrir kassann með og við munum taka með okkur áfram. Því það er skemmtilegt að deila mynd og texta um hvern Vorvinda-viðurkenningarhafa á þennan hátt.

Í janúar var haldin auka aðalfundur IBBY þar sem undirrituð var kosin formaður stjórnar og Katrín Lilja Jónsdóttir var kosin varaformaður.

Þriðja árið í röð tóku IBBY á Íslandi og Reykjavík bókmenntaborg UNESCO höndum saman og létu útbúa lestrarhvetjandi veggspjald fyrir alla grunnskóla landsins. Að þessu sinni var listamaðurinn Birgitta Sif fengin til að teikna veggspjaldið sem er ákaflega fallegt. IBBY á Íslandi efndi í fyrsta sinn til samkeppni um lestrarhvetjandi texta á veggspjaldið. Verðlaunatextinn kom frá nemendum í 4. og 5. bekk í Grunnskóla Fjallabyggðar á Siglufirði. Þau höfðu lagt höfuðin í bleyti og sendu inn margar tillögur að texta á veggspjaldið. „Lestur gefur lífinu lit“ var sá texti sem veitti Birgittu Sif innblástur fyrir veggspjaldið. Verðlaunahafarnir fengu að launum 25 þúsund krónur og efndu til snúðaveislu í tilefni afhendingar verðlaunanna og útgáfu veggspjaldsins. Þessi samkeppni er án efa komin til að vera.

IBBY hélt að vanda upp á dag barnabókarinnar með því að færa öllum grunnskólanemum landsins smásögu að gjöf. Í ár var það Kristín Ragna Gunnarsdóttir sem skrifaði skemmtilega smásögu fyrir þetta tilefni, Svartholið. Kristjana Friðbjörnsdóttir bjó til kennsluefni með sögunni og miðlaði á 123skoli.is. Sagan var flutt á Rás eitt og allt gekk frábærlega vel upp.

Félagið kom líka að ýmsu samstarfi.

Að vanda kom IBBY að undirbúningi Gerðubergsráðstefnunnar. Linda var í undirbúningsnefnd fyrir okkar hönd. Yfirskriftin að þessu sinni var lestur sem sameiginleg upplifun fjölskyldunnar. Nokkuð sem átti vel við í heimaveru fjölskyldna undanfarið ár.

IBBY var líka með fulltrúa í dómnefnd Verðlaunasjóðs íslenskra barnabóka sem valdi það handrit sem fær Íslensku barnabókaverðlaunin 2021. Þar sat Katrín Lilja fyrir okkar hönd.

Stjórn IBBY vann jafnframt að tilnefningum til alþjóðalegu ALMA verðlaunanna í samstarfi við stjórnir annarra félaga. Jafnframt mun IBBY á Íslandi leggja fram tilnefningu til IBBY-iRead Outstanding Reading Promoter verðlaunanna.

Það er ákaflega ánægjulegt að þrátt fyrir Covid faraldurinn og fjárhagsþrengingar þá náðum við hjá IBBY að framkvæma alla okkar föstu liði þetta starfsárið og það er eingöngu ykkur að þakka frábæra stjórn!

Stjórnin var þannig skipuð frá áramótum:

 • Dröfn Vilhjálmsdóttir, formaður
 • Katrín Lilja Jónsdóttir, varaformaður
 • Ingibjörg Ösp Óttarsdóttir, gjaldkeri
 • Linda Ólafsdóttir, ritari
 • Guðrún Elísa Ragnarsdóttir, meðstjórnandi
 • Sævar Helgi Bragason, meðstjórnandi
 • Ingibjörg Valsdóttir, ritstjóri Barna og menningar

-Frábær stjórn þar sem allir brenna fyrir góðum barnabókmenntum!

Fjöldi félagsmanna IBBY er nú 329, 218 einstaklingur og 111 fyrirtæki. Þessi fjöldi hefur verið frekar stöðugur undanfarin ár, en þó aukist hægt og mjög rólega. Hann segir þó ekki alveg alla söguna, því hróður IBBY er stöðugt að breiðast út og eigum til að mynda 1100 Facebook-fylgjendur!

Eins og þið heyrið er félagið búið að standa í ströngu í vetur og fjöldi verkefna ýmist afstaðinn eða á döfinni.

Krúnudjásn IBBY og flaggskip er þó tímaritið Börn og menning. Það er óhætt að segja að tímaritið sé stolt félagsins og yndi enda ákaflega vandað og eina tímaritið sem helgað er barnamenningu á Íslandi.  Ritstjóri tímaritsins er Ingibjörg Valsdóttir og í ritnefnd sitja Helga Birgisdóttir og Magnea J. Matthíasdóttir. Stjórn IBBY þakkar ritnefndinni hjartanlega fyrir þeirra frábæru vinnu. Hausthefti Barna og menningar kom út í desember. Blaðið var að stórum hluta helgað teiknimyndasögum að því sinni. Vorhefti tímaritsins kemur út á næstu dögum og þema þess er leikhúsið. Þetta verður síðasta tímaritið sem Ingibjörg ritstýrir en hún hefur verið ritstjóri Barna og menningar frá því árið 2017. Ingibjörg hefur stýrt tímaritinu með styrkri hendi og af mikilli fagmennsku. Jafnframt hefur hún verið stjórninni ómetanleg stoð og styrkur í stjórnarstörfunum IBBY á þessum fjórum árum sem hún hefur verið ritstjóri. Hildur Ýr Ísberg mun setjast í ritstjórnarstólinn í stað Ingibjargar og stjórn IBBY hlakkar til að starfa með henni á nýju starfsári.

Elsku Ingibjörg. Mig langar fyrir hönd stjórnar að slá botninn í þessa skýrslu með því að segja við þig: Hjartans þakkir fyrir þitt vandaða og óeigingjarna starf í þágu IBBY, tímaritsins Barna og menningar og þar með barnamenningar á Íslandi. Stjórn IBBY langar að færa þér dálítinn þakklætisvott. Reykjavíkurbók barnanna kemur út síðar á þessu ári. Linda Ólafsdóttir málaði þessa dásamlegu mynd af Viðey sem mun, ásamt fleiri myndum, myndlýsa þá bók. Okkur langar að færa þér þessa mynd í þakklætisskyni fyrir þitt frábæra starf og til minningar um IBBY.  

Á fallegu myndinni hennar Lindu lýsir friðarsúlan hennar Yoko Ono.  Á stalli súlunnar eru grafin orðin „hugsa sér frið“ eða „Imagine Peace“ á 24 tungumálum. Einhvern veginn finnst mér það smellpassa við markmið alþjóða IBBY, sem er að miðla skilningi milli þjóða heims með barnabókum. Og núna þegar þú færð frið frá IBBY kæra Ingibjörg, þá vona ég að við sjáum frá þér fleiri frábærar barnabækur.

Að þessu sögðu ætla ég að ljúka máli mínu, þakka stjórninni fyrir einstaklega gott samstarf í vetur og legg til að við skálum fyrir IBBY á Íslandi, fráfarandi ritstjóra og nýjum ritstjóra!

Gunnarshúsi, 17. maí 2021

Dröfn Vilhjálmsdóttir