Lestrarhvetjandi veggspjald 2022

Nú í byrjun árs 2022 tóku IBBY á Íslandi og Reykjavík bókmenntaborg UNESCO höndum saman og létu útbúa lestrarhvetjandi veggspjald fyrir alla grunnskóla landsins.

Listamaðurinn sem fenginn var til verksins að þessu sinni er Pétur Atli Antonsson.

Pétur hefur getið sér gott orð sem listamaður hérlendis en ekki síður erlendis og sérstaklega sem myndhöfundur barna – og unglingabóka. Pétur útskrifaðist úr Academy of Art University, San Francisco, árið 2011 með BFA í myndlýsingu. Pétur hefur myndlýst fyrir fyrirtæki um allan heim og þá helst bókakápur sem nálgast hundrað talsins. Þar má nefna nýjar Star Wars bækur fyrir Disney Lucasfilm Press og nýju kápurnar fyrir Artemis Fowl bókaflokkinn fyrir Penguin Books.

Petur Atli Antonsson (@peturantonsson) / Twitter

Nú um mundir er verið að dreifa veggspjaldinu og innan skamms mun það prýða veggi allra grunnskóla landsins. Þetta er fjórða árið sem IBBY, í samvinnu við Reykjavík bókmenntabók UNESCO, fær listamann til þessa að skapa lestrarhvetjandi veggspjald fyrir grunnskólanemendur landsins að njóta. Verkefnið kom til í kjölfar ákalls frá skólasöfnum grunnskóla á Íslandi eftir lestrarhvetjandi efni á íslensku til að skreyta veggi skólasafna og skóla með og veita þannig grunnskólabörnum innblástur til lesturs.